135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:09]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Hér er rætt um þingsályktunartillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og meðflutningsmanna hans um heimkvaðningu íslenska friðargæsluliða frá Afganistan, sem þar starfa í alþjóðlegu öryggissveitunum undir stjórn NATO. Þegar greinargerðin með tillögunni er lesin virðist sem tillöguflytjendum sé sérstaklega í nöp við að friðargæsluliðar starfi sem hluti af liðsafla Atlantshafsbandalagsins. Það þarf ekki að koma á óvart miðað við skoðun hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á því góða bandalagi. En í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Atlantshafsbandalagið er komið út í mikla ófæru í Afganistan, í verkefninu sem Bandaríkjamönnum hentaði að henda í NATO.“

Ég vil minna á að aðgerðirnar í Afganistan njóta víðtæks stuðnings alþjóðasamfélagsins eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti vel hér á undan. Því er fjarstæða að líta á þetta sem einleik Bandaríkjamanna og svo síðar NATO.

Ég ætla bara að endurtaka það, þingmanninum til fróðleiks, að auk NATO koma fjölmörg ríki, fjölþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök að aðgerðum í landinu. Þær byggja á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1386 frá 20. desember 2001. Ályktunin kvað m.a. á um að koma á fót alþjóðlegu öryggissveitunum ISAF til þess að tryggja frið og stöðugleika í Kabúl og nágrenni. Síðan hefur ISAF fengið aukið hlutverk. NATO tók yfir stjórn öryggissveitanna árið 2003 og í nokkrum skrefum var aðgerðarsvæði þeirra stækkað með heimild öryggisráðsins. Frá því í október 2006 hafa alþjóðlegu öryggissveitirnar náð til alls landsins.

Í dag eru aðgerðirnar í Afganistan langumfangsmesta aðgerð og verkefni NATO og um leið tákngervingur hinna miklu breytinga hjá bandalaginu sem hefur lagað sig að nýjum ógnum og öryggisumhverfi eftir lok kalda stríðsins. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan eru þó engan veginn einkamál bandalagsins því auk NATO-ríkjanna 26 leggja 14 önnur ríki mannskap til sveitanna og þær sveitir telja nú um það bil 43 þúsund manns. Ríkin sem leggja til öryggissveitanna eru rótgróin lýðræðisríki, eins og hér hefur komið fram. Norrænar frændþjóðir okkar auk Ástralíu, Nýja-Sjálands, Austurríkis, Írlands og Sviss. Ég nefni þau sérstaklega til marks um þann víðtæka stuðning sem aðgerðirnar njóta í alþjóðasamfélaginu utan raða Atlantshafsbandalagsins.

Aðgerðir alþjóðasamfélagsins í Afganistan byggjast á þremur meginstoðum: hernaðaraðstoð, uppbyggingu löggæslu og réttarkerfis og uppbyggingu félagslegra innviða samfélagsins. Hver þessara stoða er mjög mikilvæg og þarna getum við Íslendingar, jafnvel þótt við séum herlaus þjóð, lagt okkar af mörkum til þessa verkefnis.

Nú starfa 13 friðargæsluliðar íslensku friðargæslunnar í landinu og framlag þeirra hefur eins og kunnugt verið rekstur alþjóðaflugvallarins í höfuðstöðvum alþjóðaöryggissveitanna og í endurreisnarsveitunum í Ghor-héraði.

Þrátt fyrir að ýmsar neikvæðar fréttir berist frá Afganistan, ég ætla síst að gera lítið úr þeim, vil ég líka minna á og leggja áherslu á þann mikla árangur sem hefur þó náðst. Við megum ekki gleyma því þegar við ræðum um stöðuna í þessu stríðshrjáða landi.

Ógnarstjórn talibana sem stundaði kerfisbundið mannréttindabrot, ekki síst gegn konum og stúlkum, hefur verið komið frá. Ég held að við getum öll fagnað því. Talibanar ráða um 10–15% landsins, 10% eftir því sem ég heyrði í útvarpinu í morgun haft eftir bandarískum hershöfðingja. Því miður hafa þeir getu til sjálfsmorðsárása og annarra hryðjuverka víða um landið sem oftar en ekki hafa bitnað á konum og börnum og öðrum saklausum borgurum.

Lýðræðislegar kosningar hafa farið fram í landinu, bæði um þing og forseta. Nefna má að 91 kona náði kjöri á afganska þingið sem er um það bil þriðjungur þingmanna. Ég tel það vera góðan árangur í ljósi sögunnar. Yfir 80% landsmanna hafa aðgang að lágmarksheilbrigðisþjónustu, sem er líka mikil framför frá því sem áður var. Tæplega 5 milljónir flóttamanna hafa snúið aftur heim. Stigin hafa verið stór skref í að endurreisa skólakerfi landsins. Á tímum talibana sóttu 900 þúsund drengir skóla. Nú eru skólabörn í Afganistan yfir 5 milljónir talsins og þar af er 1,8 milljónir þeirra stúlkur. Ég minni á að menntun stúlkubarna var bönnuð á tímum talibanastjórnarinnar. Ég veit ekki hvers vegna ætti að gera lítið úr þessum árangri. Ég skil það satt að segja ekki.

Að auki tel ég mikilvægt að halda því til haga að samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið styður meiri hluti Afgana veru öryggissveitanna í landinu.

Herra forseti. Þrátt fyrir þann árangur sem ég hef rakið þá dreg ég ekki dul á að gífurleg verkefni og áskoranir bíða alþjóðasamfélagsins í Afganistan. NATO á enn eftir að yfirstíga marga erfiða hjalla áður en friði verður komið á í öllu landinu. Það er sannarlega verkefni þar sem við horfum til margra ára.

Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil að við Íslendingar höldum áfram að leggja okkar af mörkum við hlið bandalagsþjóða okkar í NATO. Vinaþjóða okkar í Atlantshafsbandalaginu. Það er einfaldlega skylda okkar sem NATO-ríkis og aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna að axla ábyrgð og taka þátt í þessum aðgerðum alþjóðasamfélagsins sem beinast að því að Afganir geti um frjálst höfuð strokið og tekið við stjórn síns eigin lands um leið og við tryggum öryggi í okkar eigin ríkjum með því að uppræta þann griðastað sem hryðjuverkamenn áttu í skjóli talibana.

Virðulegi forseti. Ég er í grundvallaratriðum ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í þessum efnum. Ég held að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, samstarfið við vinaþjóðir okkar og það framlag sem við höfum lagt til bandalagsins, þetta góða samstarf, sé okkur afar mikilvægt nú sem stendur og líka í framtíðinni, eins og sagan hefur kennt okkur.