135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:17]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn að tala um það og það er ekki talað fyrir því hér að alþjóðasamfélagið, eins og það er svo hátíðlega orðað, afskrifi Afganistan og reyni ekki að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið þar. Spurningin er bara hvaða aðferðir eru vænlegastar í þeim efnum. Mér finnst menn skauta svolítið létt yfir þá staðreynd að það stendur yfir stríð í Afganistan. „This is NATO's first ground war“, sagði Robert Gates fyrir nokkrum dögum og virtist fagna tímamótunum. Að þetta væri hið nýja NATO sem er að láta til sín taka í fjarlægum heimsálfum langt utan þess svæðis sem það var upphaflega stofnað til að verja en ekki til þess að herja á aðra. Kannski væri ástæða til þess að við spyrðum okkur í leiðinni spurninga um það, ef við höfum einhvern tíma átt heima í þessum klúbbi: Eigum við þá að vera þar lengur úr því að þetta er orðið aðalverkefnið?

Menn verða að spyrja sig að því hvort þessi aðferðafræði styrjaldarinnar sé líkleg til að skila mönnum árangri. Hún gerir það ekki. Ég vildi óska að satt væri og innstæður væru fyrir þeirri fallegu upptalningu á árangri sem hv. þingmaður var með. Maður fær mjög misvísandi fréttir um að mikill árangur sé að nást. (Gripið fram í.) Já, já, nú hlæja menn mjög, það er gott, þá leggja menn það á borðið.

Eitt af því sem alþjóðlegar hjálparstofnanir benda á er að þeim sé ómögulegt að starfa við þær aðstæður sem eru í Afganistan vegna stríðsátakanna, vegna þess líka að NATO og Bandaríkjamenn nota þær aðferðir að múta héraðshöfðingjum, bera í þá fé og þeir eru fljótir að komast upp á lagið og eru jafnvel grunaðir um það núna að standa sjálfir fyrir sprengingum af og til til að sannfæra þá sem dæla í þá peningunum að það verði að halda áfram að styðja þá. Það er gott að ógnarstjórn talibana, hverjum Bandaríkjamenn komu á lappirnar og hverja Bandaríkjamenn fjármögnuðu og vopnuðu á sínum tíma, er farin frá, sérstaklega ef eitthvað betra hefði komið í staðinn.