135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:20]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki í útúrsnúningaleik við hv. þingmann um viðkvæm mál. Ég sagðist einmitt fagna því ef innstæður væru fyrir því að árangurinn væri að nást jafnríkulega og hv. þingmaður taldi upp. Ég spyr mig þá að því: Hvers vegna tvöfaldaðist mannfall óbreyttra borgara milli ára frá 2006 til 2007 ef árangurinn er svona mikill? Ætli lýsing hv. þm. Jóns Magnússonar á gervisamfélaginu í Kabúl hafi kannski ekki verið dálítið nærri lagi, að það eigi að heita sæmilega friðvænlegt þar innan múranna en menn aki þó um í brynvörðum bifreiðum? En þegar kemur út í héruð landsins svo maður tali nú ekki um suðurhlutann í Afganistan þá verð ég ekki mikið var við það að ástandið hafi batnað. Það er m.a. svo ótryggt að meira en helmingur ríkjanna sem tekur þátt í aðgerðunum neitar að senda sitt fólk inn á það svæði.

Ég var ekki að tala fyrir því. Þegar ég segi að alþjóðasamfélagið eigi ekki að afskrifa Afganistan þá er ég að tala um að það eigi að gera allt sem skynsamlegt er og kemur að raunverulegu gagni til þess að reyna að stilla þarna til friðar og skapa forsendur fyrir uppbyggingu og framþróun. Mér sýnist það ekki ganga mjög vel. Eru ekki bráðum sjö ár síðan ráðist var inn í Afganistan? Þetta er farið að taka svolítið í, er það ekki? Ég held að menn ættu að vera menn til að horfast í augu við það að þetta hefur ekki gengið mjög vel og kannski er eitthvað að aðferðafræðinni. Kannski ættum við að velta því fyrir okkur hvort aðrar aðferðir væru betri, t.d. að hætta þarna vopnuðum aðgerðum og reyna að vita í gegnum hjálparstofnanir og samtök hvort hægt er að koma þannig aðstoð til fólks í staðinn fyrir það andrúmsloft vályndis og tortryggni sem þarna ríkir núna.

Þetta mál er að sjálfsögðu tvíþætt. Það er annars vegar árangur eða árangursleysi þessara aðgerða sem slíkra og hins vegar spurningin um það hvort við eigum að vera þarna. (Forseti hringir.) Tillagan gengur ekki lengra en það að við endurskoðum þátttöku okkar þarna og meira að segja er bent á það í greinargerð að það væri til bóta að færa liðsafla okkar frá NATO og undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.