135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:23]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vissulega falleg hugsun að ímynda sér hv. þm. Steingrím J. Sigfússon fara fyrir friðelskandi fólki og setjast niður í eyðimörkinni og semja við talibanana um að hætta þessu. Það hljóta allir að sjá að það væri náttúrlega besta lausnin og ég hvet þingmanninn til að halda áfram að vinna að því og ég ætla ekkert að útiloka fyrir fram að sú aðferð gangi upp. (Gripið fram í.) Nei. Þingmaðurinn spyr: Hvers vegna tvöfaldaðist mannfall í Afganistan fyrst árangurinn var svona mikill sem ég nefndi? Það er stríð í Afganistan, við erum öll sammála um það. Árangurinn hefur fyrst og fremst náðst í norðurhéruðunum en í suðurhéruðunum ríkir enn þá styrjaldarástand. Það er að sjálfsögðu markmið okkar allra að ljúka þessum átökum og koma á friði í öllu landinu. Það er rétt að þetta hefur tekið sjö ár og þetta er búið að vera langt og þetta á eftir að verða enn þá lengra. En ég get alveg fullvissað þingmanninn um það að ef alþjóðasamfélagið færi frá Afganistan og skildi afgönsku þjóðina eftir eina til að leysa úr þessum málum þá hefði það stórvægilegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir afgönsku þjóðina og fyrir okkur hin, vegna þess að Afganistan hefur eins og áður sagði verið staður þar sem hryðjuverkamenn hafa getað falið sig og haldið úti liðsveitum sínum og það er okkur öllum í hag að halda áfram að berjast gegn þeirri óáran.