135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:37]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð spurning hjá hv. þingmanni og fullkomlega eðlilegt að hún sé rædd. Svar mitt við henni, þó að ég hafi aðgerðaáætlunina ekki í höndunum, og ætli mér ekki þá dul að kunna hana til hlítar, er mjög einfalt. Verkefni friðargæslu af þessum toga er fyrst og fremst að koma á og tryggja fullnægjandi frið í landinu til að hægt sé að hefja uppbyggingu innviða samfélagsins. Það var t.d. verkefnið í Bosníu, ég þekki það nokkuð betur og skal bara lýsa því aðeins.

Í byrjun voru auðvitað skærur þar. Og í byrjun heyrðust efasemdaraddir, sérstaklega eftir fyrstu árin. Eftir fyrstu tvö til þrjú árin jókst mannfall, það gerist auðvitað. En árangurinn var samt sem áður á þann veg að það mannfall var mælanlegt í tugum mannslífa í staðinn fyrir þau 400.000 sem týndu lífinu á árabilinu 1992–1995. Og síðan hefur gengið vel við uppbyggingu innviða landsins, sérstaklega þegar haft er í huga að ekki eru nema 12 ár liðin síðan friður komst á. En það er örugglega verkefni sem alþjóðasamfélagið, og nú með Evrópusambandið í broddi fylkingar, mun sinna áfram næstu 30 árin með einum eða öðrum hætti. En minni og minni mannafla þarf til þess og eftir því sem ávinningurinn verður sýnilegri gefst þeim sem sinna verkefninu kostur á að fækka í herliðinu.

Markmiðið hlýtur að vera að styðja samfélagið til uppbyggingar. Það verður ekki gert nema með því að tryggja frið. Ég spyr líka hv. þingmann á móti: Hver er hinn valkosturinn? Er það valkostur að skilja fólkið eftir í höndum þeirrar spillingar og óstjórnar sem hann lýsti hér í löngu máli í inngangi sínum? Eða er það verkefnið að standa með fólkinu gegn kúgurum þess og styðja það til sjálfsbjargar?