135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:39]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alltaf spurning með hvaða fólki verið er að standa. Og það er náttúrlega höfuðatriðið að fólkið sem um er að ræða standi með sjálfu sér. Við getum ekki ætlast til þess að unglingum úr Evrópu sé att út í að vera skotmark fyrir einhver óskilgreind markmið, fyrir einhvern óskilgreindan hóp eða fólk eða jafnvel sérhagsmuni. Það er þar sem við komum inn í.

Hv. þm. Árni Páll Árnason líkir þeim hlutum sem eru að gerast í Afganistan við eitthvað sem gerðist í Evrópu, í okkar bakgarði, en þar er ólíku saman að jafna. Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann, mér finnst fullt ástæða til að hafa það sem innlegg í þessa umræðu: Er friðvænlegra nú en fyrir nokkrum árum þegar NATO fór út í þessar friðaraðgerðir? Er friðvænlegra nú í Afganistan en þá var? Í öðru lagi: Er stærri hluti landsins nú í höndum stjórnar Hamid Karzai en var þegar þetta „friðarferli“ hófst? Í þriðja lagi: Hefur framleiðsla fíkniefna minnkað á því tímabili eða hefur hún aukist?

Það er hægt að svara þessu öllu þannig: Nei, allt hefur farið á verri veg. Við erum að tala um ríki sem er því miður misheppnað. Spurningin er: Hvernig eigum við að komast út úr þessu með einhverjum sóma? Það er verðugt verkefni að fjalla um. Það er það verkefni sem við eigum að tala um og taka upp á vettvangi með vinum okkar í Atlantshafsbandalaginu. Hvernig getum við skammlaust komist frá þessu rugli sem er og við höfum blandað okkur inn í í Afganistan?