135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:48]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Krafa hv. þingmanns um að ég komi með lausnirnar í Afganistan vegna þess að ég legg til að við köllum liðsafla okkar heim hlýtur að byggja á þeirri hugmynd hv. þingmanns að aðgerðir standi og falli með þátttöku okkar. Þess vegna sé réttmætt að gera þá kröfu að við komum bara á einu bretti með lausnarorðin, hvernig leysum við málin í Afganistan.

Ég held að við getum öll verið sammála um að þar er við gríðarlegan vanda að etja. Kannski voru gáfulegustu ummælin sem hér hafa fallið í umræðunni þau að það væri verðugt verkefni að ræða á málefnalegan hátt hvaða leiðir eru til út úr þessum ósköpum vegna þess að núverandi aðferðafræði virkar ekki. Ef við gætum nú bara orðið sammála um að ræða þó málin á þeim grundvelli.

Við leggjum til að við förum heim frá Afganistan, ekki vegna þess að okkur renni ekki til rifja örlög þeirra þjóðar og við vildum gjarnan leggja þar lið. Við leggjum það til vegna þess að við erum ekki með her, þarna eru herjir að störfum. Við leggjum það til vegna þess að við höfum sett lög um þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum sem slá því föstu að slík þátttaka skuli alfarið vera borgaraleg. Hv. þingmaður segir að það sé á hreinu að það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í Írak. Við erum að færa fyrir því rök að það sé mjög hæpið að það sé uppfyllt í Afganistan ef ekki beinlínis augljóst. Það er ekki í anda laganna sem sett voru hér og þeirrar hugsunar sem að baki lá, að setja algerlega skýr mörk varðandi alla þátttöku okkar, að hún væri alfarið á borgaralegum forsendum.

Þegar menn bera vopn og hernaðarlega titla og lúta stjórn hershöfðingja og herskipulags er svæðið orðið í besta falli mjög grátt. Það tel ég mig geta rökstutt fullnægjandi vel þannig að meira að segja hv. þingmaður sem er að vísu vel að sér í NATO-málum (Forseti hringir.) — og veldur því nú kannski að hann kemst nokkuð við þegar hann ræðir þetta hér — mundi fallast á það.