135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:50]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það gagnrýnisvert að kalla eftir því að við skerumst úr leik og komum síðan fram með tillögur um eitthvað annað sem ekki er skýrt hvað er.

Það er ljóst, þrátt fyrir orð hv. þingmanns, að þau verkefni sem við sinnum í Afganistan uppfylla skilgreiningar alþjóðasamtaka um að vera borgaralegs eðlis. Það er líka ljóst að við höfum áður starfað innan herkerfis, t.d. í Bosníu, með mjög góðum árangri að borgaralegum verkefnum. Það er mjög mikilvægt að við getum gert það, hv. þingmaður, vegna þess að ella dæmum við okkur til að vera í puntudúkkuhlutverki í friðargæslu vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki burði eða herafla til þess að sinna alvöruverkefnum þar sem veruleg hætta er á átökum. (Gripið fram í.) Með því væru Íslendingar að segja að friðargæsluverkefnið sem þeir ætluðu að taka þátt í væri verkefni sem væri ekki á meðal þeirra erfiðustu. Að því leyti skærust þeir úr leik á alþjóðavettvangi (Gripið fram í.) vegna þess, hv. þingmaður, að það er mjög mikilvægt að við getum stutt við aðgerðir sem eru til þess ætlaðar að koma á friði.

Við rákum t.d. hersjúkrahús í Bosníu og skiluðum þar gríðarlegum árangri. Það var aðgerð sem nágrannaríkjum okkar reyndist erfitt að manna en við gátum mannað hana með góðum árangri. Fyrir vikið greiddum við leið þess liðs sem gat komið í veg fyrir frekari óöld. Til að stilla til friðar á átakasvæðum af þessum toga þarf vopnað lið sem hefur til þess burði að ógna deiluaðilum þannig að þeir haldi sig á mottunni. Það er nauðsynleg forsenda þess að friði verði komið á.