135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:12]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski óréttmætt að blanda sér hér í ástar-haturssamband Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þessi umræða er alveg með ólíkindum og það hvað brigslyrðin fara hér á milli aðila.

Fyrst verið er að tala um aðstoðarmenn og embættismenn úr utanríkisráðuneytinu þá er ég ánægð með að fólk sé glaðlynt á þeim bæ. Þannig að það er bara ágætt.

Ég tel að við hefðum ekki átt að draga friðargæslu okkar út úr Írak og þar af leiðandi ekki heldur út úr Afganistan þannig að ég styð ekki á tillögu sem hér er á borðinu.

En mig langar aðeins að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, af því að öll orðræðan er bara gegn því að vera yfirleitt í Afganistan eins og ég skil orðræðuna hjá Vinstri grænum. Því vil ég spyrja hv. þingmann út í það sem kemur fram í greinargerðinni, að það væri betra en ekki að draga íslensku friðargæsluna strax út úr samstarfi við NATO og færa liðsaflann til dæmis undir stjórn Sameinuðu þjóðanna í landinu. (Forseti hringir.) Ég skil það sem svo að það komi vel til greina af hálfu vinstri grænna að við séum með fólk í Afganistan. Er þetta rétt skilið?