135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[15:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar var umhyggja hv. þm. Ellerts B. Schrams fyrir mannréttindum og réttindum kvenna þegar talibanar ríktu í Afganistan og þjónuðu hagsmunum Bandaríkjanna í 10 ár? Ég var að rifja það upp þegar ég hélt á þessar slóðir upp úr 1980 til að segja fréttir af frelsishetjunum sem áttu í höggi við Sovétherinn í Afganistan og þá sem þar fóru með völdin og voru að sönnu að rýmka réttindi kvenna, auðvelda þeim aðgang að menntun svipað og margir vilja gera núna.

Við erum að gagnrýna á hvern hátt við höfum afskipti af þessum málum. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum voru ástæðan fyrir því að ráðist var inn í Afganistan á sínum tíma, þannig var það réttlætt. En meginhugsunin var að þjóna hernaðarhagsmunum Bandaríkjanna. Það er staðreyndin.