135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[15:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eina sem ég skildi sem rök hæstv. ráðherra fyrir þessu þjóðnýtingar- og miðstýringarfrumvarpi var að þetta hefði alltaf verið svona, ríkið hefði alltaf vasast í þessu.

Ég veit ekki betur en að frumkvöðlar raforkuframleiðslu á Íslandi hafi verið einstaklingar. Ég minni á Skaftafellssýslu í því sambandi og Hafnfirðinga. Þetta var ekki alltaf ríkið þótt ríkið, sem öflugasti aðilinn á Íslandi þann tíma er einstaklingunum var haldið niðri, hafi eitt haft burði til að standa í þessu. En núna gætu einstaklingarnir gert það.

Ég spyr aftur: Hvað óttast ráðherrann ef einkaaðilar eignast orkuauðlindir? Er það valdið sem Pútín beitir Vestur-Evrópu, að ógna með því að hóta að skrúfa fyrir gasið? Ég minni á að Pútín er með ríkisvædda orku. Þess vegna getur hann hótað og beitt því pólitískt, sem einkaaðilar mundu aldrei geta gert.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Er skynsamleg nýting auðlinda og annarra gæða yfirleitt betri í höndum opinberra aðila, þ.e. embættismanna, en einkaaðila? Ég bara spyr að því. Væri skynsamlegt að opna skóbúð ríkisins eða matvöruverslun ríkisins? Ég bendi á að það er miklu mikilvægara fyrir menn að fá að borða heldur en að fá orku og mætti út frá þessu hafa bensínsölur ríkisins eða matvöruverslun ríkisins, svo ég tali ekki um bújarðir ríkisins, bændabýli ríkisins.