135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður veit hvað þjóðin vill. Það er þá einhver sem veit það. Hún talar niður til mín eins og venjulega. Talar um trúboð og annað slíkt, (Gripið fram í.) að mín trúarbrögð, já og mín rök séu ekki þungvæg.

Ég var að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún sagði að auðlindir ættu að vera í eigu ríkisins, hins opinbera. Það var það sem hv. þingmaður sagði og ég spurði: Hvað er þá auðlind? Ég hlýt að mega að spyrja að því.

Hv. þingmaður sagði að sólarljósið væri auðlind, sólarljósið er þá í eigu ríkisins eða ætti að vera það og mannauðurinn líka. Það sem fólkið á eigi að vera í eigu ríkisins. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að fara.

Varðandi Jöklu og Kárahnjúka, þá veit ég ekki betur en að Jökla hafi verið skaðvaldur um aldur í sögunni, skaðvaldur þangað til hún var virkjuð og fór að vinna fyrir okkur. Sem ég hef glaðst yfir síðan, að Jökla sé að vinna fyrir okkur og sé orðin að auðlind. Hún var ekki auðlind. Hún er núna orðin að auðlind fyrir atbeina tækni, mannvits og fjármagns. Og ég gleðst yfir því að sjálfsögðu. Af því að ég vil að þjóðin eigi sem flestar auðlindir. Hvort sem þær eru í einkaeigu eða ríkisins. Ég sé engan mun á því og vildi helst að þær væru flestar í eigu einstaklinga vegna þess að þeir fara miklu betur með og kunna miklu betur með að fara. Það hefur sýnt sig.

Það sýndi sig í Sovét. Það frumvarp sem við ræðum hérna og hv. þingmaður er svo glaður yfir það minnir að öllu leyti á Sovétríkin sem liðu undir lok fyrir 19 árum. Menn ættu virkilega að skoða hvort það sé besta kerfið í heimi að hafa allt saman í eigu ríkisins og allt saman skipulagt og framkvæmt ofan frá skrifborðum hér í Reykjavík.