135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um að hann vildi heldur að einhverjir aðrir þingmenn en embættismenn iðnaðarráðuneytisins mundu setja reglurnar en af því tilefni verð ég að segja að hv. þingmaður hefur ekki lesið frumvarpið nógu vel. Ef hv. þingmaður læsi það, bráðabirgðaákvæði III, þá kæmi í ljós að í stað embættismanna iðnaðarráðuneytisins er verið að tala um nefnd sem hver skipar? Formaður Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. forsætisráðherra skipar nefndina sem huga á að þessu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að grípa þarf til ákveðinnar regluþekkingar til þess að koma í veg fyrir þau áhrif sem hann taldi neikvæð af þessu. En það er einmitt það sem sá maður segir sem gerði álitið sem hv. þingmaður vísar til. Hann segir það skýrt í áliti sínu að þessi niðurstaða feli ekki í sér gagnrýni á ætlaða lagasetningu og telur síðan upp sjö atriði sem huga þurfi að með reglusetningu til að vinna þetta upp. Það er algerlega nauðsynlegt að það komi fram.

Svo er ýmislegt fleira að segja en ég verð að láta það bíða.