135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni er fullkomlega frjálst að hafa hvaða skoðun sem hann vill á því. Ég hef aðra skoðun. Ég vil líka taka það alveg skýrt fram út af fyrri orðum hv. þingmanns að ég er þingræðissinni. Ég legg fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar frumvarp og ég geri engar athugasemdir við að hv. iðnaðarnefnd noti allar þær leiðir sem hún telur færar til að skoða frumvarpið út í hörgul. Það er réttur hennar og skylda.

Ég hef sagt það alveg skýrt að ég hef engan hug á því að reyna að fara á svig við stjórnarskrána. Þess vegna lýsti ég því af fullkominni hreinskilni hvað ég hefði upphaflega viljað gera. Ég komst að þeirri niðurstöðu með vísan til álitsgerðar þess prófessors í stjórnskipunarrétti sem við kölluðum til að ein leiðin var ekki fær. Ég tók hana út úr hinu ætlaða frumvarpi þótt ég hefði gjarnan viljað sjá hana þar. Ég fer ekki viljandi fram með frumvarp sem fer gegn stjórnarskránni, það er alveg rétt. Síðan er ég þeirrar skoðunar að einstaklingsfrumkvæðið og frumkvæði fyrirtækja fái fullkomlega notið sín einmitt í krafti þess að það er ákvæði um að gætt verði fullkomins jafnræðis við að leyfa afnot af auðlindunum.