135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sit ekki hér í einhverri vitnastúku þar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson getur krafið mig svara um mína afstöðu. Það mun auðvitað koma í ljós í þeirri atkvæðagreiðslu sem fram undan er vegna frumvarpsins. Ég viðraði þrenns konar viðhorf sem ég taldi að nefndin ætti að taka til sérstakrar skoðunar og allir hv. þingmenn, þar á meðal hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson — viðhorf sem ég tel að þurfi nánari skoðunar við og hugsanlegar breytingar og þar á meðal hvað varðar bann við framsali.

Það er ekkert launungarmál að ég hef efasemdir um að það sé skynsamlegt að banna framsal með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um vegna þess að slíkt bann hefur í för með sér, eins og Friðrik Már Baldursson segir, að það sé ekki efnahagslega skynsamlegt eða hagkvæmt að grípa til slíkra takmarkana. Ég tek undir þau sjónarmið og ég tel að hæstv. iðnaðarnefnd (Forseti hringir.) eigi að gera það líka, eða a.m.k. taka þau rök til skoðunar.