135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar undirtektir hans og þingflokks hans við þetta frumvarpi. Það er ákaflega mikilvægt að hafa breiðan stuðning við það. Ég er sammála hv. þingmanni varðandi það atriði sem hann ræddi um stjórnarskrá og sveitarfélög. Hv. þingmaður tók dæmi af skólanum. Löggjafinn og ríkisvaldið hafa heldur betur haft afskipti af skipan skólamála í sveitarfélögum. Ef það gengur gagnvart sveitarfélögum þá hlýtur þetta að ganga framvegis.

Ég bendi hv. þingmanni jafnframt á að ef sú röksemd væri rétt, að þarna væri brotin stjórnarskrá og sveitarfélaganna þá vaknar spurningin: Mætti nokkuð frekar setja lög um aðskilnað varðandi fyrirtæki sem sveitarfélögin eiga, þ.e. orkufyrirtæki? Hv. þingmaður tók í sama streng og annar þingmaður talaði um í dag, þ.e. varðandi ákvæði um að heimilt sé að þriðjungur af þeim fyrirtækjum sem starfa samkvæmt sérleyfi geti verið í eigu markaðsaðila. Hv. þingmaður taldi að með því móti væri unnt að komast í orkulindirnar. En það er misskilningur.

Það liggur ljóst fyrir, samkvæmt þessu frumvarpi, að sérleyfisfyrirtækin mega ekki eiga orkulindir. Undanþága gagnvart því eru fyrirtæki, sem hv. þingmaður ber örugglega fyrir brjósti, eins og Orkubú Vestfjarða, með veltu undir tveimur milljörðum. En eignarhaldsákvæðin gilda líka um það þannig að það er algerlega skotið loku fyrir þá hjáleið sem hv. þingmaður nefndi.

Mér þótti hv. þingmaður frjálslyndur þegar hann talaði um orkuframleiðsluna. Auðvitað er það þannig í dag samkvæmt EES-reglum að sérhver innan EES-svæðisins má reisa og reka orkuvirkjun. Þannig eru lögin í dag.