135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru alveg gild rök sem hv. þingmaður telur hér fram að áður fyrr var það þannig að enginn hafði fjárhagslegt bolmagn til þess að byggja upp orkuvirkin nema ríkið og síðar sveitarfélögin. Nú er allt annað uppi. Ég bara ítreka það sem ég sagði áðan: Svona eru reglurnar á EES-svæðinu og við höfum svo sem séð með hvaða hætti þær hafa brotist fram hér í hinu íslenska orkuumhverfi.

Ég vil svo segja það að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að Orkubú Vestfjarða er fyrirtaks fyrirtæki og ég hef eins og hv. þingmaður áhuga á að efla það fyrirtæki. Ég hef séð hvernig það hefur sinnt þörfum Vestfirðinga. Ég tel til dæmis nauðsynlegt fyrir það fyrirtæki og eigendur þess að skoða með hvaða hætti það geti aukið sína orkuframleiðslu til þess að auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Hv. þingmaður hefur nú lagt fram fyrirspurnir sem ég á ósvaraðar um það.

Til gamans get ég þess, af því hv. þingmaður er að velta fyrir sér hjáleiðum til þess að komast inn í auðlindirnar, að eins og staðan er núna, af þeim fyrirtækjum sem eru í eigu ríkisins og sinna orkumarkaðnum þá er í þeim öllum að finna ákvæði sem gera það óheimilt nema með sérstakri samþykkt, lagabreytingu, reyndar tvöfaldri samþykkt Alþingis að selja þau. Í lögum um í Landsvirkjun og Rarik er beinlínis sagt að þau eigi að vera í eigu ríkisins. Það þyrfti þá væntanlega að breyta þeim lögum og síðan þyrfti að taka ákvörðun í fjárlögum um sölu í kjölfarið ef menn færu þá leið. Það gildir ekki um Orkubú Vestfjarða út af sögunni sem hv. þingmaður rakti. Ríkið og sveitarfélögin lögðu þarna saman og út af aðkomu sveitarfélaganna þá er ekkert slíkt inni í lögunum. Þannig að eins og staðan er núna þá er þessi leið fullkomlega fær varðandi þetta ríkisfyrirtæki þó að sjálfsögðu, ef um væri að tefla hlut ríkisins, þá þyrfti það að koma fyrir þingið í formi að minnsta kosti 6. gr. ákvæðis.