135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:36]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er til 1. umr. frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Þetta frumvarp lætur ekki mikið yfir sér. Það er svokallaður bandormur og geymir aðeins nokkrar greinar um hvern þann lagabálk sem verið er að breyta. Engu að síður er hér um algjört grundvallarmál að ræða sem töluvert hefur verið til umræðu á undangengnum áratugum.

Vegna þess að frumvarpið er svokallaður bandormur er ekki beinlínis beint markmiðsákvæði í löggjöfinni heldur fer markmiðssetningin fram í einstökum lögum sem liggja að baki og síðan áframhaldandi í þeirri vinnu sem fram undan er í frekari lagasmíð. Engu að síður fela þær breytingar sem þarna koma fram í sér tvær grundvallarbreytingar á orkumarkaði, í fyrsta lagi það atriði sem hefur verið til umræðu sérstaklega í dag og það er framsalið, framsal auðlinda, nýtanlegra vatnsréttinda og hins vegar það sem ég ætla kannski að ræða frekar um hér og nota ræðutíma minn að mestu leyti til, sá aðskilnaður sem kveðið er á um á milli samkeppnisþátta og einkaleyfisþátta sérstaklega vegna þeirra fyrirtækja sem jafnframt eru í hitaveiturekstri.

Það hefur óskaplega mikið gerst á stuttum tíma á orkumarkaði. Það sem við höfum helst verið að ræða í þjóðfélaginu til lengri tíma er litið þegar orkumál eru til umræðu er í hvað eigi að nýta orkuna, hvernig eigi að fara með hana til lengri tíma, hvort það eigi að vera ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign auðlindarinnar og svo framvegis. En við höfum ekki fram að þeim tíma er ný raforkulög voru sett horft sérstaklega á þann hugsanlega markað sem gæti orðið með rafmagnið.

Vegna þess að þetta frumvarp, þessi bandormur er svona vaxinn þá erum við að fjalla hér um mjög ólíka hluti á sama tíma. Við erum annars vegar að fjalla um hápólitískt mál og stórkostlegt lagalegt álitamál og það er hvernig eigi að tryggja aðgang að auðlindinni og hins vegar erum við að tala um grundvallaratriði í því að fyrirtækjum í landinu á sviði orkumála sé sköpuð jöfn skilyrði.

Í haust og sumar, þegar deilur stóðu sem hæst í Reykjavíkurborg og enduðu með því að þáverandi meiri hluti sprakk, nýr meiri hluti komst til valda og hann sprakk líka og enn er nýr meiri hluti tekinn við, þá var rótin að þeim deilum sem þá urðu í raun sú hvernig ætti að fara með fyrirtæki í svokölluðum blönduðum rekstri, hitaveiturekstri og rafmagnsframleiðslu. Þetta er mál sem verið hefur mjög til umfjöllunar á meðal þessara fyrirtækja þótt það hafi ekki fram að þeim tíma ratað svo hressilega í hina pólitísku umræðu vegna þess að þegar raforkulögin voru sett þá var hitaveituþátturinn alveg skilinn eftir. Tilskipun Evrópusambandsins er að því tilliti til dálítið óvenjuleg fyrir okkur Íslendinga að hún fjallar fyrst og fremst um rafmagnsframleiðslu. Hún fjallar auðvitað ekki um hitaveitur. Ég trúi því að þetta sé að hluta til vegna þess að í raun er ekki slík starfsemi svo víða í heiminum. En það má á margan hátt segja að sú hitaveitustarfsemi sem hér er og hafði verið rekin fram að þeim tíma með raforkuframleiðslunni, þ.e. að menn litu mjög mikið á þetta sem það sama hérna heima á Íslandi fram að því að þessi raforkulög voru sett. Þess vegna held ég að þegar þessi orkumarkaður var settur í gang og menn fóru að keppa sín á milli á smásölumarkaði sem við teljum reyndar mörg að sé að mörgu leyti erfitt við þau skilyrði sem við erum með hér þá var mjög bagalegt að fyrirtækin voru svo ólík að þessu leyti. Sum voru með hitaveituframleiðslu. Önnur voru eingöngu með raforkuframleiðslu og það voru efasemdir uppi um hjá sumum að það væri hægt að aðskilja þetta með skýrum hætti.

Svo þegar kemur að því að menn deila um það hvert sé hlutverk opinberra fyrirtækja, hvenær þau eigi að vera í áhætturekstri erlendis — ég ætla ekki að fara yfir alla þá umræðu — þá þurfti sérstaklega að horfa til þess hvernig þessi fyrirtæki voru skipulögð. Þá erum við að horfa sérstaklega til þessara fyrirtækja sem hafa hitaveitu og raforkuframleiðslu. Ég held að með þessu frumvarpi sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur hér lagt fram sé að verulegu leyti lagað þetta vandamál sem þarna skapaðist. Ég fagna því alveg sérstaklega ákvæðum frumvarpsins og vegna þess að ég er að tala hérna um aðskilnaðinn þá held ég að þau muni reynast okkur mjög vel í því að koma lagi á þennan markað til þess að menn geti síðan haldið áfram að þróa þessi félög áfram okkur til hagsbóta.

Síðan er það hitt atriðið sem ég vil taka til umræðu hér og það er þetta ákvæði í 1. gr. frumvarpsins sem varðar svokallað framsalsbann. Þetta hefur verið mjög mikið til umræðu hér í dag og það er alveg augljóst að það eru skiptar skoðanir hjá ýmsum um hvernig með þetta eigi að fara. Ég er hlynnt frumvarpinu eins og það liggur fyrir með þeim fyrirvörum að það eru náttúrlega ákveðnir hlutir sem væntanlega verða til umræðu í iðnaðarnefnd eins og alltaf er. Það þarf að leyfa hinni þinglegu meðferð að njóta sín í þessu frumvarpi eins og öllum öðrum. En ég held að ákvæðið um þennan tímabundna afnotarétt til 65 ára sé jákvætt.

Þegar horft til þess hversu gríðarlegar fjárfestingar eru hér að baki — ég hjó eftir því að bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Guðni Ágústsson töldu að hér væri um mjög langan tíma að tefla. Þetta er nefnilega mjög afstætt. Auðvitað er um langan tíma að tefla þegar maður ber 65 ár saman við til dæmis ýmsa aðra samninga sem gerðir eru á markaði. En þá ber að líta til þess að þegar um er að ræða svona gríðarlega miklar fjárfestingar sem liggja að baki þá verða menn að hafa töluverðan tíma til þess að borga fjárfestinguna til baka og hafa af henni einhvern hag. Í mínum huga er þetta því alveg ágætis tímalengd og ég vil alls ekki sjá hana neitt styttri en þetta.

Ég bendi á að í Noregi hefur mikið verið rætt um hinn svokallaða „hjemfallsretten“ sem þeir kalla svo í Noregi og við getum að einhverju leyti svona borið það saman við það sem við erum að gera hér. Þar hafa menn stuðst við 60 ár. Vandinn hins vegar við allar svona tímasetningar er alltaf þegar kemur að lokum tímabilsins og menn fara að velta því fyrir sér hvort einhver hætta sé á því að menn gangi á auðlindina í lokin. Hæstv. iðnaðarráðherra nefndi til sögunnar sérstaklega, að mig minnir, jarðgufuvirkjanir og hvort hætta sé á því að menn mundu ganga frekar á auðlindina í því, keyra hana harkalega svona undir lokin. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því vegna þess að fyrir utan allt regluverkið sem við erum að setja og bæta hér við þá er mikið eftirlit haft með orkuframleiðslu. Við erum með sterkar eftirlitsstofnanir á þessu sviði sem hafa það að markmiði að fylgjast með því að allt fari fram með réttum hætti og það mundi aldeilis eiga við í þessu tilviki.

Eins vil ég taka fram að í þessu frumvarpi eru ákvæði um að nánari reglur eigi eftir að líta dagsins ljós um hvernig með þetta eigi að fara og í því sambandi held ég að ágætt sé að líta til þess hvernig hægt sé að tryggja að ekki verði um sóun að ræða í lok þessa tímabils.

Í Noregi á orkuverið þegar sérleyfistímanum lýkur að skila byggingum og vélum í fullu og rekstrarhæfu lagi. Leyfishafa er ekki skylt að endurbæta eða uppfæra orkuverið en það verður að vera í góðu lagi miðað við þær kröfur sem giltu þegar orkuverið var byggt. Þó verður það að uppfylla gildandi kröfur hverju sinni svo sem varðar rafmagnsöryggi og svo framvegis.

Ég nefni þetta bara sem dæmi um það hvernig menn hafa horft á þetta annars staðar. Ég held að við eigum að reyna að læra eins mikið og við getum af grannþjóðunum með það. Engu að síður held ég að þegar komi að því að útfæra þessa samninga þá verði að passa alveg sérstaklega vel upp á þetta og eins þau ákvæði sem verða væntanlega í þessum samningum, hvernig er farið með það, þ.e. að passa upp á að engin hætta verði á að menn fari einhvern veginn að versla með það sín á milli sem ég held að sé engin hætta á. En þetta er eitt af þessum atriðum sem ég held að menn hljóti að skoða í þessari reglugerðarvinnu.

Í fyrstu greininni vil ég líka benda á 4. málsgreinina um að gæta skuli jafnræðis þegar ákveðið er hver fær afnotaréttinn. Þá vaknar náttúrlega spurning þegar um er að ræða auðlindir eins og hér sem eru að meginhluta til nú þegar í eigu opinberra aðila. Og, nota bene, það er ekkert verið að hagga með þessu frumvarpi á neinn hátt þeim réttindum sem eru þegar hjá einkaaðilum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi fram. Þótt við séum að tala um og velta því fyrir okkur hvernig við gerum þetta núna þá erum við náttúrlega alltaf þegar við erum að tala um orkumálin að undirbúa okkur undir það að fá síðan út úr því sem við gerum — hvaða skoðun sem við höfum á því hvernig eigi að nýta orkuauðlindir — en við erum að hugsa um það samt sem áður að skapa svigrúm til þess að við Íslendingar höldum okkar samkeppnisstöðu og þá er ég ekki bara að tala um stórframleiðslu heldur á öllum sviðum þegar kemur að orkuframleiðslunni.

Við skulum ekki gleyma því að þessi fyrirtæki hafa innanbúðar gríðarlega mikla þekkingu og í kringum þessi fyrirtæki hefur skapast mikil þekking í landinu sem er út um allt þjóðfélag, þ.e. verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnaðarmenn og svo framvegis. Verkfræðideildin upp í Háskóla og víðar hafa byggst upp af þeirri þekkingu sem þarna er og það er skylda okkar að allar reglur sem um þetta mikilvæga mál eru settar gæti þess að þarna er um grundvallarauðlind að ræða fyrir íslensku þjóðina til skemmri og lengri tíma, algjör grundvallarauðlind sem við verðum að fara vel með og verðum að passa og verðum að nýta skynsamlega þegar við teljum að þörf sé á því.

En atriðið sem mig langaði til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sérstaklega út í kemur fram í bráðabirgðaákvæði I um nefnd á vegum forsætisráðherra sem hefur það verkefni að fara nánar yfir það hvernig eigi að snúa sér í þessum málum og hvernig eigi að fara með það þegar á að velja aðila, þ.e. hvernig eigi að velja þann sem tekur þá við auðlindinni þennan takmarkaða tíma, hvort ráðherrann hafi velt því fyrir sér hvaða sjónarmið gætu þar helst verið uppi fyrir utan auðvitað þau jafnræðissjónarmið sem berlega koma fram í frumvarpinu.

Eins langar mig til að ræða örlítið við hæstv. iðnaðarráðherra um það hvernig þessi löggjöf, þetta frumvarp lítur á hinn þátt þessara orkufyrirtækja sem er dreifing og flutningur. Nú liggur fyrir að dreifingin og flutningurinn er allt öðrum reglum búinn heldur en hinn þátturinn. Hér er um einkaleyfi að ræða, bæði sérleyfi og einkaleyfi í þessum tilvikum. Þessi fyrirtæki geta ekki átt neinar auðlindir til dæmis og þeirra er fyrst og fremst að gæta að því hvernig uppbyggingu dreifikerfis og flutningskerfis er háttað. Það er ekkert gert ráð fyrir neinum einkaaðilum þarna inni. Engu að síður er í raforkulögunum ákvæði um það að ef flutningsfyrirtæki telur að það geti hvorki né vilji einhverra hluta vegna byggja upp flutningsnet á einhverjum ákveðnum stað þá geti aðrir aðilar gert það. Slíkt ákvæði er ekki að finna í dreifikaflanum. En á margan hátt má spyrja sig að því af hverju það mætti ekki alveg eins vera þar. Ég átta mig stundum ekki alveg á þessum mun. Af hverju mætti ekki að hugsa sér það á þeim nótum líka? Þetta getur skipt verulegu máli.

Fyrst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi að honum þætti ekkert athugavert við að einkaaðilar kæmu inn í landið og byggðu virkjun og nýttu hana til einhverrar starfsemi sem þeim hentaði svo lengi sem auðlindin væri hjá ríkinu og menn mundu þá bara gera samning til 65 ára um það hvernig þeir ætluðu að snúa sér í því þá kemur að því að það þarf að byggja línu. Þá er ekkert augljóst að einkaaðilinn gæti gert þetta með þessum hætti nema flutningsfyrirtækið segi að það muni ekki taka þátt í þeim kostnaði og bjóði þá einkaaðilanum að gera það. En þá lendum við hins vegar í vandræðum með dreifinguna.

Þess vegna beini ég því til hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann telji samt ekki svona til lengri tíma litið að það sé í sjálfu sér allt í lagi, ef við horfum bara á reglurnar sem gilda í landinu og alla þessa lagaumgjörð, að ef einkaaðilar sjá hag sinn í því að taka einhvers konar verkefni frá upphafi til enda — og það þyrfti ekki einu sinni að tengjast flutningskerfinu og ef það gerði það mundi það ekkert gera annað heldur en að bæta það — er nokkuð því til fyrirstöðu í sjálfu sér að slíkt sé gert? Og væri þá ekki ástæða til að skoða til dæmis þennan dreifiþátt hvað þetta varðar?

(Forseti hringir.) öðru leyti vil ég segja að ég veit að hv. iðnaðarnefnd mun fara vel yfir þetta mál og ég hlakka til að taka þátt í umræðunni frekar.