135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:56]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Grundvallarhugmyndin að baki því að flutningskerfið sé í eigu ríkisins og að veiturnar, orkufyrirtækin í sveitarfélögunum, hafa ýmist einkaleyfi í tilviki hitaveitu eða sérleyfi í tilviki rafdreifiveitu er sú að þarna sé náttúruleg einokun. Með öðrum orðum að samkeppni sé ekki viðkomið á þessu sviði og það er þess vegna sem þessu eignarhaldi er með þessum hætti farið.

Ég sé í sjálfu sér ekkert, svo ég sletti nú dönsku sem samstarfsráðherra „på stående fod“ á móti því að mál eins og hv. þingmaður færir hér fram verði leyst með þessum hætti. Það hefur ekki nema ein áhrif á heildarkerfið allt saman. Við vitum að út af því að Ísland er strjálbýlt land og tiltölulega fámennt, við erum fámenn þjóð í stóru landi, og það er sennilega ástæðan fyrir því að flutnings- og dreifikostnaður er tiltölulega hár hér á landi þó að orkuverðið sjálft sé lágt og meira að segja mjög lágt í samanburði við önnur lönd.

Ég sé auðvitað í hendi mér að hv. þingmaður er að velta því fyrir sér að ef hér skapaðist ákveðið atvinnutækifæri þá gæti verið gott fyrir viðkomandi fyrirtæki að vera utan við þetta kerfi og kosta sjálft flutning og þess vegna það sem við mundum geta skilgreint sem dreifilínu af því það yrði hugsanlega á lægra verði. Ég þori ekki að segja mun lægra verði en það er hugsanlegt að hægt sé að sýna fram á að það yrði lægra en ella. Það er væntanlega þetta sem vakir fyrir hv. þingmanni. Ég segi bara sem byggðaráðherra, að ef hægt er að sýna mér leiðir til þess að stuðla að því að sett séu á stofn fyrirtæki á hinum ýmsu svæðum landsins, þá er ég til í að skoða það og miklu meira en það. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ríkið eigi að koma miklu sterkar inn í það að veita slík tækifæri en það bíður annarrar umræðu.

Að því er varðar spurningu úr fyrri ræðu hv. þingmanns, um nefndina sem forsætisráðherra á að skipa um leiðir, þá á fyrst og fremst að gilda jafnræði og það er þessarar nefndar að fara yfir öll þau sjö atriði sem Friðrik Már Baldursson lagði fram í álitsgerð sinni (Forseti hringir.) til að tryggja að nýtingin verði með hagkvæmum hætti.