135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[17:58]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þykist viss um að þessi nefnd undir forsætisráðuneytinu muni skoða einmitt þau sjónarmið sem komu fram í þessu ágæta plaggi frá Friðriki Má Baldurssyni. Og ég vil líka benda á, vegna þess sem ég sagði í ræðu minni að við höfum verið að ræða orkumál um töluverðan tíma, að ástæða er til að nefna að alls kyns nefndir hafa verið í gangi í langan tíma til að skoða þessi mál. Ég nefni auðlindanefndina frá árinu 2000 sem fjallaði reyndar um auðlindir í víðu samhengi og kannski meira á þeim nótum sem hv. þm. Pétur Blöndal gerði í dag, þar var talað um rafsegulbylgjur og allt mögulegt, og síðan var önnur nefnd sem Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður veitti forstöðu sem fjallaði sérstaklega um vatnsafl og jarðvarma. Þegar við fjöllum um þessi mál ættum við að geyma með okkur það sem kemur fram í niðurstöðum beggja þessara nefnda þótt það sé kannski ekki alveg sambærilegt á öllum sviðum en þó kom þar margt mjög athyglisvert fram sem ástæða er til að staldra við.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa frekari orð um þetta en ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst margt gott í þessu frumvarpi og ég held að það geti hjálpað okkur til að skapa þá ró sem við þurfum að ná um þessi orkufyrirtæki og hjálpar okkur vonandi við að sjá þau tækifæri sem búa í orkufyrirtækjunum og þeim möguleikum sem þau geta haft til framtíðar.