135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:40]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag er þetta mál afar yfirgripsmikið og að mörgu að hyggja til þess að tryggt verði að þessum málum verði sem best komið í framtíðinni með hagsmuni bæði almennings og fyrirtækja í þessari atvinnugrein að leiðarljósi sem og með skynsamlega nýtingu og umgengni við auðlindina sem markmið.

Að sjálfsögðu er ekki hægt í stuttri ræðu að gera grein fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem huga þarf að í þessu samhengi enda margt af því komið fram í umræðunni fyrr í dag. Ég mun því tæpa á nokkrum atriðum sem mér þykja skipta máli í þessu samhengi. Hv. iðnaðarnefnd fær síðan málið til meðferðar og mun ég sem nefndarmaður þar fá tækifæri til að skoða það til hlítar.

Ég tel ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi og tek sérstaklega undir með hv. þm. Ólöfu Nordal hvað varðar kröfuna um aðskilnað á milli samkeppnis- og sérleyfisþátta. Ég er hlynnt því að þarna sé skilið á milli og ætla ekki að endurtaka þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þingmanns en, eins og áður sagði, tek ég undir þau sjónarmið heils hugar.

Með þessu frumvarpi er verið að tryggja að eignir ríkisins verði ekki framseldar með varanlegum hætti til einkaaðila. Hins vegar er mikilvægt að það sé skýrt að hér er með engum hætti verið að hrófla við núverandi eignarhaldi einkaaðila á orkuauðlindum. Það kom mjög skýrt fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra fyrr í umræðunni. Frumvarpið er því eins konar stefnuyfirlýsing um að eignir ríkisins verði ekki seldar núna hvað sem framtíðin kann að bera að í skauti sér.

Ég ætla að vitna í umfjöllun Morgunblaðsins þann 3. febrúar sl. um þessi mál en þar er m.a. haft eftir formanni Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Geir segir mikilvægt að átta sig á því að frumvarp iðnaðarráðherra gangi ekki út á að ríkið taki til sín eignarréttindi sem það hefur ekki nú þegar. Til lengri tíma litið sé það þess vegna stefna Sjálfstæðisflokksins að nýtingar- og afnotaréttur að auðlindunum verði hjá einkaaðilum að svo miklu leyti sem það samræmist almannahagsmunum.“

Ég tek heils hugar undir þessi sjónarmið hæstv. forsætisráðherra.

Ég tek einnig undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í umræðunni í dag hjá hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Sigurði Kára Kristjánssyni hvað varðar kröfuna um eignarhald opinberra aðila á auðlindum. Ég er ekki jafnsannfærð og höfundar þessa frumvarps um það sjónarmið að hagkvæmust og best nýting auðlinda sé ævinlega tryggð með því að halda þeim í samfélagslegri eigu. Þvert á móti er það almennt skoðun mín að einkaeigandi sé líklegri til þess að bera meiri virðingu fyrir eign sinni en svo að hann gangi á hana þannig að hún skili ekki hámarksarðsemi og nýtingu. Til lengri tíma gætir hann þess að ganga sem allra best um auðlindina til þess að tryggja viðskipti til framtíðar.

Það er einnig tryggt nú þegar að opinbert eftirlit sé með umgengni um auðlindina og nýtingu hennar. Í mínum huga er það nægjanlegt. Markmið okkar allra er að tryggja sem besta umgengni og nýtingu auðlindarinnar. Ég held að hægt sé að gera það með góðu opinberu eftirliti óháð því hver eigandi auðlindarinnar er. Því má einnig halda fram að opinberir eftirlitsaðilar séu líklegri til þess að veita starfsemi í einkaeign meira aðhald en starfsemi í eigu hins opinbera, það er engum hollt að hafa eftirlit með sjálfum sér. Ég tel því að til framtíðar sé skynsamlegt að nýtingar- og afnotarétturinn verði í höndum einstaklinga en að ríkið hafi regluverk sitt klárt og setji starfseminni eðlilegar skorður.

Ég vildi ítreka þessi sjónarmið sem fram hafa komið, eins og áður segir, í umræðunni í dag. Á sama tíma tek ég fram að ég tel að sú staðreynd að heimilt sé samkvæmt frumvarpinu að veita tímabundinn afnotarétt til 65 ára, vera ákveðna bót í þessu máli. Sá tími tekur að vissu leyti tillit til þeirra sjónarmiða sem ég hef rakið og er nógu langur þannig að fyrirtæki og fjárfestar geta gert langtímaáætlanir eins og nauðsynlegt er í þessum „bransa“, svo að ég sletti nú aðeins. Ég vil taka fram að mér að meinalausu hefði þessi leigutími mátt vera enn lengri.

Í greinargerð frumvarpsins er vísað til álitsgerðar sem hagfræðingarnir Friðrik Már Baldursson og Nils-Henrik M. von der Fehr unnu fyrir iðnaðarráðuneytið. Þar var þeim falið að fjalla um efni frumvarpsins með tilliti til efnahagslegra sjónarmiða og þeirra afleiðinga sem það kynni að hafa. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór aðeins yfir það sjónarmið fyrr í dag. Álit þeirra félaga er afar fróðleg lesning. Þar kemur fram að takmarkanir þær sem felast í frumvarpinu feli í sér ýmis hagfræðileg álitaefni. Einnig fara þeir vel yfir hverjar afleiðingar slíkra takmarkana gætu verið á auðlindina sjálfa og umgengni við auðlindina. Þeir nefna m.a. svokallaðan leigjandavanda sem þekktur er í hagfræðinni og hv. þm. Ólöf Nordal fór nokkrum orðum um í ræðu sinni. Þeir benda á að líklega þurfi að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerðir og að leggja þurfi í aðrar aðgerðir til að lögin nái markmiði sínu að fullu. Það var einnig rætt hér áðan.

Boðað er í frumvarpinu, eins og einnig kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra, að tíminn frá setningu laganna til gildistöku þeirra til 1. júlí 2009 verði nýttur til reglugerðarsmíða. Það er ágætt í sjálfu sér og við bíðum þeirra reglugerða með eftirvæntingu. Ég vil þó taka fram að ég er sammála þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram hér í dag um að best hefði verið að á þessu hefði verið tekið í lögunum sjálfum þannig að allri óvissu um þessi mál væri eytt. Við værum þá með allar staðreyndir málsins fyrir framan okkur nú þegar við fjöllum um þessa löggjöf.

Hagfræðingarnir segja skýrum stöfum að takmarkanir á eignarhaldi og framsali auðlinda hafi í för með sér neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni í nýtingu þeirra.

Þeir segja, með leyfi forseta:

„Takmörkun á eignarhaldi og framsali auðlinda takmarkar möguleikana á því hver nýtir auðlindirnar og með hvaða hætti það er gert. Slíkar takmarkanir hafa neikvæð áhrif á efnahagslegt virði auðlindanna og hagkvæmni í nýtingu þeirra. Hversu víðtæk þessi áhrif eru er háð því hvernig takmörkunum er háttað og hvort og þá hvernig unnið er gegn þessum neikvæðu áhrifum með ákvæðum og samningum um bætur og með reglusetningu um umgengni um auðlindirnar.“

Í áliti sínu benda þeir á ýmis atriði sem nauðsynlegt yrði að framkvæma til þess að reyna að draga úr þeim ágöllum. Frumvarpið sjálft tekur ekki á ábendingum þeirra fyrir utan boðaðar reglugerðir sem ég nefndi þannig að nú liggur ekki fyrir hvernig brugðist yrði við þessum atriðum sem þeir nefna. Hins vegar er það rétt sem ítrekað hefur komið fram í umræðunni og er boðað í ákvæðum til bráðabirgða að við gildistöku laga þessara skuli hæstv. forsætisráðherra skipa nefnd til þess að fjalla um þau atriði sem m.a. eru nefnd í áliti hagfræðinganna. Ég vil lýsa ánægju minni með það verklag og tel það afar mikilvægt. Ég bind miklar vonir við starf þessarar nefndar.

Orkufyrirtækin þurfa eins og önnur fyrirtæki að hafa stöðugleika í rekstrarumhverfi sínu og því tel ég mjög brýnt að þessum málum sé þannig fyrir komið að ekki skapist óvissa um framtíðarfyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins. Við þurfum að hlusta á sjónarmið þeirra og áhyggjur í þessu samhengi. Ég vil þá í þessu samhengi fagna sérstaklega boðuðu samráði við orkufyrirtækin um endurskoðun sérlaganna um þau í bráðabirgðaákvæði I, ef mig misminnir ekki. Ég tel að það samráð sé af hinu góða og fagna því.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið við þessa umræðu. Okkar í iðnaðarnefnd bíður að sönnu mikil vinna við að hlusta á ólík sjónarmið þeirra sem málið varðar. Komið hefur fram hér í dag að um þessi atriði eru mismunandi skoðanir, eins mörg lögfræðileg álit væntanlega og lögfræðingarnir eru margir. Okkur nefndarmönnum ber skylda til þess að hluta á rökin og fara vandlega yfir þetta mikilvæga mál.