135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:49]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði fullkomlega þá skoðun hv. þingmanns þegar hún segir að æskilegra hefði verið frá hennar sjónarmiði að búið væri að setja þessar reglur sem nefnd forsætisráðherra á að móta og slá þeim jafnvel í lög. Það er nú ekki þannig að það sé í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin, þessi ríkisstjórn eða sú ríkisstjórn sem á undan sat, ræðst í að skipa nýtingu auðlinda með lögum án þess að hafa hnýtt alla lausa enda ef hér er um lausan enda að ræða.

Ég vek sérstaka eftirtekt á því að við erum núna að ráðast í nýtingu nýrrar auðlindar, í krafti laga um leit og nýtingu kolefnis. Þau lög voru sett að ég hygg í kringum síðustu aldamót. Þessi ríkisstjórn hefur þegar tekið ákvörðun um að bjóða út á alþjóðlegum grundvelli sérleyfi til nýtingar olíu af íslenskum hafsbotni. Ég get ekki upplýst hv. þingmann um hve mörg lög á eftir að setja sem varða það. Ætli það séu ekki svona fimm eða sex lög, þar á meðal algjörlega um það með hvaða hætti skuli fara með skatta og hlut ríkisins af væntanlegum arði af því. Það er allt saman eftir. Ja, herra trúr, ég segi það nú bara alveg í fullri hreinskilni: Ef mönnum finnst að þarna sé of geyst farið, hvað þá með hitt?

Það lustu allir hér, a.m.k. sem ég þekki og er í vináttu við í þinginu, upp fagnaðarópi þegar loksins var gerður reki að því að bjóða út leyfi í olíu þó að allt þetta væri eftir. Ríkisstjórnin setti fram ákveðið plan um með hvaða hætti það yrði gert. Það er nefnd átta ráðuneytisstjóra sem er að vinna að því. Það er ekki nokkur maður sem fettir fingur út í það. Þetta er algjörlega sambærilegt.