135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:21]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að þarna liggi hundurinn grafinn. Við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum í grundvallaratriðum ósammála þegar kemur að þessum þætti, hvaða hlutverki einkafjármagnið hafi að gegna í samkeppni orkufyrirtækja. Ég held nefnilega að tími sé til kominn að einkafjármagnið fái leið inn í þessi fyrirtæki eins og svo mörg önnur fyrirtæki sem eru algjörlega á hendi einkaaðila að reka.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að mikil þekking hefur byggst upp í orkufyrirtækjunum og vöxtur orðið á undangengnum áratugum meðan fyrirtækin voru í ríkiseigu. En það var kannski líka vegna þess að einkaaðilar höfðu ekki það bolmagn sem þeir hafa í dag til að fara í þau verkefni.

Framkvæmdir í orkufrekum iðnaði, þ.e. nýting orkunnar, kosta mjög mikla peninga og krefjast mikillar þolinmæði. Ég get ekki séð nokkuð athugavert við að einkaaðili sjái hag sinn í að reisa virkjun, reka hana, nýta orkuna til hagsbóta fyrir starfsemi sína. Ég sé ekki neitt athugavert við það. Ég held að það sé þvert á móti mjög gott.

Ég held raunar að næstu árin, þegar þessu vindur enn þá betur fram hjá okkur og við göngum lengra í að huga að næstu skrefum þá munum við væntanlega velta því fyrir okkur hvort okkur finnist að ríkið eigi endilega að vasast svo mikið í þessum hluta starfseminnar. En ég vil gera skýran greinarmun (Forseti hringir.) á þessu og síðan línunum sjálfum, þ.e. flutningskerfinu.