135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:42]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki mikið um þetta að segja. Ég talaði reyndar aldrei um það í ræðu minni að einkafjármagnið ætti að komast inn í raforkufyrirtækin, ég sagði hins vegar að hvað varðaði nýjar virkjanir kæmi það vel til álita.

Ég vil kannski snúa þessu við og segja við hv. þm. Ögmund Jónasson vegna þess að hann annaðhvort vill ekki viðurkenna eða vill ekki kannast við að hér sé um kúvendingu að ræða: Þau frumvörp sem hafa komið fram undanfarinn áratug frá sitjandi ríkisstjórnum hvað varðar eignarhald á auðlindunum hafa öll gengið út á það að herða á og tryggja einkaeignarrétt á auðlindum, þannig hefur það verið. Hér er lagt fram frumvarp um að tryggja eignarhald hins opinbera á þessum auðlindum. Þess vegna langar mig að segja við hv. þingmann, án þess að fara út í einhvern orðhengilshátt: Hér er um kúvendingu að ræða, hér er um stefnubreytingu að ræða sem er rétt að ræða og rétt að eftir sé tekið.

Í annan stað langaði mig að spyrja, af því að mér fannst það ekki nægilega skýrt og hv. þingmaður vill ganga lengra: Gott og vel, eins og staðan er nú er hægt að selja allar auðlindir, þannig er það í dag. Hér er verið að stíga skref til þess að koma í veg fyrir það, til þess að tryggja að auðlindirnar gangi nú kynslóð fram af kynslóð og séu nýttar á sjálfbæran hátt. Erum við ekki að tala um það, hv. þingmaður, að í þessu tilviki, þó okkur kunni að greina á um ýmislegt — ég var lengi með hv. þingmanni í stjórnarandstöðu og skildi hann þá alltaf þannig að hann væri á þessari braut — séum við a.m.k. sammála um þetta þó að ekki sé dýpra í árinni tekið?