135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er alveg rétt. Þetta lagafrumvarp kæmi til með að leggja ákveðnar hömlur á þá sem sitja hér við ráðherrabekkinn og fara með framkvæmdarvaldið. Og það er líka rétt hjá hv. þingmanni að hér er um að ræða stefnubreytingu að því leyti að á undanförnum árum hefur verið viðleitni í þá átt að treysta einkaeignarréttinn í sessi hvað auðlindirnar áhrærir. Það er alveg rétt. Þetta er rétt hjá honum.

Ég hefði hins vegar viljað ganga lengra í þessu efni. Út á það gengur rökstuðningur minn og ég hef líka efasemdir um að heppilegt sé að veita einkafjármagninu aðgang að orkugeiranum yfirleitt einfaldlega vegna þess að það samkeppnismódel hefur ekki gengið upp. Við sáum það síðast í ágætum töflum sem birtust með skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra og við ræddum, gott ef ekki var, fyrr í vikunni þar sem voru tölulegar upplýsingar um nákvæmlega þetta efni. Ég segi. Við eigum ekki að leita í smiðju mistakanna. Við eigum ekki að halda inni mistakasmiðjurnar. Við eigum að fara á þau mið sem hafa gefist vel.

Síðan kann ég svolítið illa við það þegar verið er að stilla upp sem andstæðum, sem einhverjum öfgum, köntum, annars vegar þeim sem vilja stefna í fullkomna frjálshyggju og síðan okkur hinum sem reynum að treysta almannahag, viljum tryggja eign þjóðarinnar á auðlindunum til sjávar og til landsins einnig sem var nú aðalsmerki krata hér fyrr á tíð. Það voru þeir sem tóku mjög undir sjónarmið eindreginna vinstri manna, sósíalista, um að tryggja eignarhald á auðlindum þjóðanna.