135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:47]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil það þá þannig, eins og ég lagði hér upp með í minni ræðu, að við hv. þingmaður erum þá sammála um hvað varðar þetta grundvallaratriði að tryggja eignarhaldið. Hv. þingmaður vill hins vegar ganga örlítið lengra. Þá kemur að því og af því hv. þingmaður kvartaði nú undan því að ég hefði verið að draga hér upp kantana í þessu. Eins og ég skildi hv. þingmann þá vorum við annars vegar að tala um hv. þm. Pétur H. Blöndal sem er svona holdgervingur frjálshyggjunnar hér á þingi og talaði hann um að opna þetta allt saman og sleppa þessu öllu saman lausu. Hins vegar er svo hv. þm. Ögmundur Jónasson sem ég skildi þannig að hann vildi fara aftar í tíma ... (ÖJ: Eða lengra inn í framtíðina.) Eða aftar og eiginlega endurvinna það ástand sem upp er komið og það er í raun og veru að mínu viti einhvers konar þjóðnýting. Þannig lagði ég þetta upp, þ.e. að þetta væru kantarnir í umræðunni og ég vona að hv. þingmaður telji mér það nú ekki til foráttu þó ég hafi lagt þetta upp þannig og ég svo sem trúi því að þetta sé þannig.

Hins vegar vil ég líka segja að þeir sem hafa talað fyrir einkavæðingu auðlindanna hljóta að vera dálítið hugsi þegar kemur að fiskiauðlindinni okkar því sú einkavæðing hefur falið í sér að nýting auðlindanna er þannig að vísindamenn koma ítrekað að landi og segja að fiskurinn sé horfinn, hann sé farinn. Það er geymslan á auðlindinni og það er það dæmi sem við höfum og við hljótum þá að minnsta kosti horfa til þess og reyna að læra af þeirri reynslu. Það er sú eina reynsla sem við raunverulega höfum af einkavæðingu auðlindanna.

Þess vegna finnst mér dálítið skrýtið að menn skuli koma hér og fullyrða í þessari umræðu, hafandi þetta eina dæmi, að einkavæðing tryggi sjálfbæra nýtingu á auðlindinni. Ég held að þetta dæmi sem við höfum sé einmitt í andhverfu þess og þess vegna vil ég ítreka (Forseti hringir.) hrós til hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að koma fram (Gripið fram í.) með þetta grundvallarmál.