135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að einkafjármagnið hefur ekki komið inn í vatnsveiturnar enn sem komið er. Erum við ánægðir með það, ég og hæstv. ráðherra, eða var stefnan sú að kalla eftir fjármagninu? Er það markmið, telur hæstv. ráðherra æskilegt að fá einkafjármagnið inn í orkugeirann eða gerir hann þetta í þeirri góðu trú að einkafjármagnið muni ekki leita þarna inn?

Varðandi frumkvæði einstaklinganna sem hæstv. ráðherra gerir að umræðuefni þá vill svo til að í fyrirtækjum í almannaeign eru líka starfandi einstaklingar. Þeir hafa virkjað reynslu sína og vit sitt og þekkingu til hagsbóta þjóðinni á undanförnum áratugum. Við erum hins vegar núna að tala um frumkvæði einstaklinga sem hafa fjármuni á höndum. Ég hef sannast sagna haft miklar efasemdir um að við höfum þörf á slíkum einstaklingum sem eru sérfræðingar í að höndla með fjármagn og ávaxta sitt pund á þann hátt inn í þennan geira sem á að þjóna samfélaginu bæði hér heima og utan lands á samfélagslegum forsendum en ekki samkvæmt gróðahagsmunum.