135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, félaga hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að því í dag hvort hann gæti bent mér á einhvern á markaði sem væri reiðubúinn að festa fé sitt í þeim fyrirtækjum sem við köllum sérleyfisfyrirtæki. Hv. þingmaður hló við fót úti í sal. Af hverju? Vegna þess að hann, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefur komið að því að búa til regluverkið sem er að finna í raforkulögunum. Þar eru dreifiveitunum einfaldlega settar svo þröngar skorður, eins og ég sagði hér í dag, að þó að ég hafi aldrei staðfest nokkra gjaldskrá án þess að grennslast rækilega fyrir um röksemdir fyrir hækkun þá hef ég samt komist að þeirri niðurstöðu að stakkurinn sem þeim er skorinn sé svo þröngur að það sé varla að þessi fyrirtæki hafi möguleika á að þróa starfsemi sína með þeim hætti sem krafist er af þeim. Þetta er nú bara staðreyndin. (Gripið fram í: … 100%?) Ég get ekki ímyndað mér að það sé nokkur aðili á markaði sem væri reiðubúinn til þess. Það skiptir mig heldur ekki máli þó að einkaaðilar kæmu þarna inn með fjármagn vegna þess að varðandi þennan þátt orkumarkaðarins og orkufyrirtækjanna er það einfaldlega í gadda slegið í þessu frumvarpi að hið opinbera, sveitarfélagið, hefur meiri hluta við allar hugsanlegar aðstæður. Það hefur aukinn meiri hluta og það skiptir máli. Það þýðir að frumþarfirnar eru varðar.

Annar angi frumvarpsins felur það svo í sér að eignarhaldið breytist ekki heldur frá því sem er. Hitt er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði í ræðum sínum fyrr í dag að ég er ekki að seilast í þau réttindi sem eru í einkaeign. Ég ætlast ekki til að ríkið (Forseti hringir.) ásælist þau orkuréttindi sem þar er að finna.