135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

innrás Ísraelsmanna á Gaza.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ástandið á því svæði sem hv. þingmaður nefndi er að sjálfsögðu hörmulegt. Ég tek undir það sem fram kom í máli hans hvað það varðar og framferði Ísraelsmanna er óafsakanlegt. Það þarf þó jafnframt að hafa í huga að það sem hefur orsakað þetta ástand, að því er þeir segja, upp á síðkastið eru eldflaugaárásir af þessu sama svæði, Gaza-svæðinu. Málið er auðvitað flókið eins og við öll þekkjum.

Núverandi utanríkisráðherra hefur lagt sig fram um að setja sig sérstaklega inn í vandamál þessa svæðis, hefur farið þangað í heimsókn og hefur góð sambönd á svæðinu. Hún er því miður ekki hér til að ræða þessi mál í dag. En um spurningu þingmannsins varðandi stjórnmálasamband við Ísrael þá hefur ekkert slíkt komið til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar, enda væri það mjög stórt skref að stíga í samskiptum okkar við þetta gamla vinaríki okkar sem því miður hefur leiðst út í þær ógöngur sem við fordæmum.

Síðan er spurningin sem hv. þingmaður ber fram nú eins og stundum áður: Hvað ætla Íslendingar að gera til að koma í veg fyrir þetta ástand? Menn spyrja sig gjarnan þeirrar spurningar eins og þeir vænti þess að við getum stöðvað þetta. Auðvitað er það af og frá að stilla spurningum upp með þeim hætti og það veit hv. þingmaður.