135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[15:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þær fjölskyldur sem hlut eiga að máli líði ekki fyrir einhvern fortíðarvanda á svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi. Það verður auðvitað að taka á honum og hann kann að vera stór eins og ráðherrann lýsir hér. En vandi þeirra fjölskyldna sem ég hef verið að gera að umtalsefni er ekki stór í þessu samhengi eins og hæstv. ráðherra staðfestir og þess vegna er mjög mikilvægt að þeirra mál séu leyst sérstaklega.

Í fjölmiðlum hefur komið fram m.a. áskorun frá formanni Þroskahjálpar þar sem hún segir að það sé brot á lagalegum rétti þeirra fjölskyldna sem eiga hlut að máli þegar þeim er synjað um endurnýjun á stuðningsúrræðum en hæstv. ráðherra segir nú að engum hafi í raun verið synjað og þá er að trúa því og treysta að það verði gengið frá þessum samningum.

Því það getur auðvitað ekki verið þannig að lög sem tryggja réttarstöðu þessara fjölskyldna gildi aðeins til 29. febrúar ár hvert. Þau verða að gilda allt árið og þar sem ekki er um stórar (Forseti hringir.) fjárhæðir að ræða þá skora ég á hæstv. félagsmálaráðherra að tryggja þetta tafarlaust.