135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

jarðgöng á Miðausturlandi.

[15:24]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Herra forseti. Stefna stjórnvalda á Íslandi síðastliðna tvo áratugi hefur verið að byggja upp sterka byggðarkjarna í hverjum landsfjórðungi. Það verður ekki gert á Miðausturlandi nema með því að tengja Eskifjörð, Neskaupstað, Mjóafjörð, Seyðisfjörð og Egilsstaði með jarðgöngum. Fyrir þessu hafa Austfirðingar barist í 30 ár.

Við samningu síðustu samgönguáætlunar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins var ekki minnst einu orði á jarðgöng á Austurlandi. En fyrir atbeina þingmanna Framsóknar tókst að koma m.a. Norðfjarðargöngum inn í áætlunina.

En miðað við orð hv. þm. Ólafar Nordal í fréttum um helgina kveður nú við annan tón úr röðum sjálfstæðismanna. Því beini ég fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra þar sem greinilega er sterkur vilji innan samstarfsflokksins um að flýta og fjölga gerð jarðganga og spyr hæstv. samgönguráðherra hvort samgöngur á Austurlandi séu frágengin mál af hálfu stjórnvalda og ef ekki, hver sé afstaða hæstv. samgönguráðherra til fyrrnefndra jarðganga á Austurlandi.