135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:32]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl) (frh.):

Virðulegi forseti. Eins og ég var að segja þegar ég var stöðvaður þá voru þau meginsjónarmið sett fram við flutning frumvarps til breytinga á þingsköpum fyrir jól að nauðsyn bæri til þess að styrkja stöðu stjórnarandstöðu. Var í því sambandi nefnt að formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu fengju sér sérstaka aðstoðarmenn en ráðherrar ráða sér jafnan sérstaka aðstoðarmenn hver fyrir sig. Það var eðlilegt og sjálfsagt að formenn stjórnarandstöðuflokka fengju sérstaka aðstoðarmenn og er það að hluta til til þess að jafna aðstöðumun stjórnarandstöðu og stjórnarflokka.

Það er hins vegar misskilningur að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé að öðru leyti til að styrkja stöðu stjórnarandstöðu. Þegar málið er skoðað kemur í ljós að með ráðningu sérstakra aðstoðarmanna fyrir þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fá stjórnarflokkarnir meiri starfskraft en stjórnarandstaðan. Þar er því ekki um neina jöfnun að ræða á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og kemur því málinu ekkert við.

Með því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fái sérstaka aðstoðarmenn er um eina stöðu eða brot úr stöðu að ræða sem stjórnarandstöðuflokkarnir fá til viðbótar, það eru nú öll ósköpin. Það er allt það sem verið er að rétta stjórnarandstöðunni umfram það sem stjórnarflokkarnir taka til og skoða verður þessa hluti. Það var jú lagt af stað í þessa vegferð með það að yfirvarpi að sérstaklega ætti að styrkja stöðu stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðuflokka en með þeim hætti sem hér er verið að leggja til er ekki um slíkt að ræða.

Sett voru fram þau sjónarmið að sérstakir aðstoðarmenn fyrir þingmenn í víðfeðmari og dreifbýlli kjördæmum séu til komnir vegna þess að verið sé að taka á fyrirheiti sem gefið var þegar nýja kjördæmaskipunin var samþykkt. Þá hafði verið talað um aukinn stuðning og það fyrirheit var efnt frá árinu 2000 en þá fengu stjórnmálaflokkarnir sérstaklega 50 milljónir á ári til að skipta á milli sín í því skyni. Rökstuðningur við þetta frumvarp á þeim grundvelli, að verið sé að efna áður gefið fyrirheit, á því ekki við málefnaleg rök að styðjast, fyrirheitið hefur verið efnt.

Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er að svo sé búið að Alþingi og alþingismönnum og þannig skipt á milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu að eðlilegt geti talist og í samræmi við góðar lýðræðishefðir. Þjóðþing hinna Norðurlandanna gera sér fyllilega grein fyrir því að nauðsyn ber til að jafna aðstöðumun ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokka. Þess vegna er brugðist við því með ákveðnum hætti en allt öðrum en þeim sem ætlunin er að gera hér. Þá er litið til þess að nauðsyn ber til að aðstoða þingmenn við að kynna sér mál. Aðstoðin er almennt á grundvelli málefna. Í sumum tilvikum er sérstakt tillit tekið til minni stjórnmálaflokka. Það gerist líka í löndum þar sem vegalengdir eru aðrar og mun meiri en hér og kjördæmi mun víðfeðmari. Við ættum í því sambandi sérstaklega að líta til þeirra þjóða sem eru skyldastar okkur að lagahefð. Þá er ég að vísa til annars vegar Norðmanna og hins vegar Dana. Það væri út af fyrir sig eðlilegra að við tækjum okkur Norðmenn til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Ég spyr: Hvernig skyldi standa á því að hinar Norðurlandaþjóðirnar velja allt annað kerfi aðstoðar við þingmenn stjórnarandstöðu og fyrirkomulag en hér er verið að leggja til? Hvernig stendur á því að þar eru störf aðstoðarfólksins skilgreind og liggur ljóst fyrir hvað viðkomandi aðstoðarfólk á að gera? En hér liggur ekkert fyrir um hvað aðstoðarmenn sumra þingmanna eiga að gera og úr hvaða sérstaka vanda aðstoðarmenn sumra þingmanna eiga að leysa. Þá liggur ekki fyrir og hefur ekki farið fram málefnaleg umræða um að hvaða leyti það er nauðsynlegra fyrir suma þingmenn að fá aðstoðarfólk en aðra. Hvað veldur því? Það er bagalegt þegar lagafrumvarp eins og það sem hér um ræðir er sett fram og jafnframt látið að því liggja að takmarkaður tími gefist til umræðu og frumvarpið verði að afgreiða með hraði.

Ekki voru nein vandkvæði á því að leggja þetta frumvarp fram fyrr. Þá verður ekki séð að neitt sérstakt knýi á um að málið hafi þann forgang sem það hefur og sé ýtt áfram af þeim meiri hluta sem á bak við það stendur þannig að ekki gefist tóm til eðlilegrar skoðunar í þeirri þingnefnd sem fjallaði um málið. Hv. þm. Atli Gíslason gerði ítarlega grein fyrir því í góðri ræðu sinni um málið og í nefndaráliti 1. minni hluta. Ég tek undir þau sjónarmið sem hann færði fram varðandi afgreiðslu málsins í þingnefndinni.

Ég hef gert ákveðnar breytingartillögur með vísan til þess að svo virðist sem hér sé verulegur meiri hluti fyrir því að styðja þetta frumvarp og það liggur fyrir í áliti 2. minni hluta.

Þá er í fyrsta lagi við það miðað að fyrsta setningin orðist svo:

„Alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann og skulu greiðslur til hans fara eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis ákveður.“ — Þ.e. „og skulu greiðslur til hans fara“ er bætt við 1. gr.

Síðan geri ég tillögu um ákvæði til bráðabirgða þannig að ljóst sé að með þessari lagasetningu séum við ekki að gera upp á milli þingmanna. Við ætlum að allir þingmenn njóti sömu kjara, sömu réttinda hvað þetta varðar. Við bætist því ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um, miðað við fjárveitingar sem hafa verið ákveðnar, að á þessu almanaksári, árið 2008, sé eingöngu um ráðningu aðstoðarmanna þingmanna í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi að ræða. Þar með tel ég að gengið sé eins langt í samkomulagsátt og unnt er.

Ég hefði kosið að gengið yrði til þessa verks með vandaðri hætti og það skoðað sérstaklega hvar skórinn kreppir að varðandi lagasetningu og möguleika þingmanna til að fylgjast með og vera virkir þátttakendur í lagasetningunni. Stór hluti íslenskra lagafrumvarpa kemur nú frá Brussel í formi gerða sem okkur ber að lögfesta að viðlagðri ábyrgð að þjóðarétti ef það er ekki gert. Á hvaða stigi fá þingmenn þessi mál til skoðunar? Ekki fyrr en þau hafa verið afgreidd í Brussel og við höfum ekki möguleika á að koma sjónarmiðum okkar að. Er það ásættanlegt? Er það þannig sem við viljum hafa það?

Í mjög góðri skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra dreifði og fjallað var um hér fyrr í vetur, var talað um aukna aðstoð og nauðsyn þess að þingmenn kæmu að þeim málum fyrr en nú er gert. Með hvaða hætti liggur ekki fyrir. Vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið — jafngóður og jafngallaður og hann nú er — eigum við þess ekki kost að koma að lagasetningarferli Evrópusambandsins nema á byrjunarstigi. Þar sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er jafngallaður hvað þetta varðar og raun ber vitni væri nauðsynlegt að fá þessu ákvæði breytt þannig að EES-þjóðir kæmu að lagasetningarferlinu á öllum stigum þess máls. En þar sem ekki er um það að ræða ber brýna nauðsyn til að Alþingi Íslendinga hafi með málin að gera og fái viðunandi kynningu á þeim sem til meðferðar eru í Brussel þannig að við getum komið sjónarmiðum okkar sem löggjafi á framfæri með eðlilegum hætti. Þannig vinnum við faglega að íslenskri lagasetningu.

Í því sambandi væri mikilvægt fyrir þingflokka og þingnefndir að fá nauðsynlega aðstoð til að leggja þau mál fyrir sem eru á vinnslustigi og okkur kann á síðari stigum að vera gert að lögleiða. Þingmenn gætu þannig fjallað um þau og gert sínar athugasemdir þannig að vilji löggjafans lægi fyrir. Það væri þó ekki eingöngu starfsfólk utanríkisráðuneytisins sem fjallaði um löggjafarmálefni Íslands á því stigi sem við eigum kost á að gera.

Mér finnst með miklum ólíkindum að þingmenn sjái ekki að þarna kreppir skórinn fyrst og fremst. Þess vegna þarf að hugsa þetta mál út frá nútímanum. Því miður finnst mér sú hugmynd sem liggur að baki frumvarpinu um sérstaka aðstoðarmenn sumra þingmanna vera fortíðarhugmynd sem menn hafa ekki verið tilbúnir til þess að skoða og fara málefnalega í gegnum. Hvað er nauðsynlegt að gera til þess að styrkja Alþingi sem löggjafarvald og hvaða sérstaka stuðning hafa menn hugsað sér fyrir stjórnarandstöðuna? Í þessa vegferð var jú fyrst og fremst lagt með það í huga að sérstaklega þyrfti að styrkja stjórnarandstöðuna.

Með því frumvarpi sem hér er verið að leggja til er eins og nú háttar til verið að bæta við nánast sömu stöðugildum fyrir stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkana þannig að ekki er um neinn sérstakan stuðning við stjórnarandstöðu að ræða. Það er því röng forsenda sem byggt er á. Mér finnst að mönnum hafi sést svolítið yfir þessi atriði. Í annars ágætri ræðu framsögumanns meiri hluta nefndarinnar komu þessi sjónarmið ekkert fram. Í raun er ekki verið að tala um neina styrkingu á stöðu stjórnarandstöðu þegar allt kemur til alls og búið er að fara í gegnum þessi mál.

Ég hef ítrekað gert grein fyrir því að það sé vilji meiri hlutans að samþykkja aðstoð fyrir suma þingmenn en ekki verður hjá því komist að það gildi þá fyrir alla. Ég hef gert athugasemd við það og talið að frumvarpið eins og það er núna og það sem á að gilda — að þetta væru aðstoðarmenn sumra þingmanna — þá sé spurning hvort um sé að ræða brot á jafnræðisreglu. Ég fór fram á að það yrði sérstaklega kannað í nefndinni, að leitað yrði til okkar færustu sérfræðinga í því efni. Ég er ekki dómari í sjálfs mín sök frekar en aðrir. Það hefur ekki enn verið kannað en kannski gefst kostur á því á síðari tímum. Ég mun láta kanna það sérstaklega ef það fæst ekki gert, það verður þá gert með öðrum hætti. Ég vil fá álit um þetta atriði af því að það er enginn dómari í sjálfs sín sök.

Ég ítreka og legg áherslu á í lok máls míns hér um þetta atriði að þingmenn eru þingmenn þjóðarinnar allrar. Þeir eru kosnir af fólki fyrir fólk, kosnir af fólki til að þjónusta fólk en ekki fyrir akra, engi, byggingar eða ferkílómetra.