135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:47]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að gerð verði grein fyrir þeim umræðum sem orðið hafa í forsætisnefnd í greinargerð með frumvarpinu. Það á að liggja fyrir um hvaða hluti var rætt þar. Ég fjalla um málið á grundvelli þess að fram komi í greinargerð með frumvarpinu hvað um sé að ræða. Ég stend því við það sem ég sagði áður um nauðsyn þess að skoða málið þó að málið hefði fengið þá umræðu sem hv. þm. Birgir Ármannsson gat um í forsætisnefnd þingsins. Full þörf var á því að í þingnefndinni færi fram mun ítarlegri skoðun á málinu, sérstaklega hvað það varðar að skoða betur með hvaða hætti og hvernig reglur væru í gildi á öðrum Norðurlöndum og jafnframt að kalla til okkar færustu sérfræðinga í stjórnskipunarrétti, sem er grundvallaratriði vegna þess, svo að ég kveði ekki fastar að orði, verulegur vafi leikur á því að þetta frumvarp standist stjórnskipunarlög.

Varðandi styrkingu á stöðu stjórnarandstöðu tel ég að við hefðum átt að skoða hvernig frændur okkar á öðrum Norðurlöndum, og þá sérstaklega Danir og Norðmenn, hafa farið að. Þar er um að ræða sérstakan stuðning, miklu meiri en verið er að ræða um hér, við stjórnarandstöðu. Frumvarpið sem hér liggur fyrir um aðstoðarmenn styrkir miklu frekar stöðu stjórnarflokkanna en stjórnarandstöðunnar, þannig er það þegar grannt er skoðað. Það er um fjölgun starfa að ræða og kemur fjölgun aðstoðarmanna, þegar undan eru skildir aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokka, fyrst og fremst í hlut stjórnarflokkanna.