135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð um þetta frumvarp sem ég hef nokkrar efasemdir um og tel mig hafa fullt leyfi til, ég segi það að gefnu tilefni úr umræðunum hér áðan.

Það er ekki ný hugmynd að koma upp aðstoðarmönnum við þingmenn með einhverjum hætti og segja má að í þingsögunni undanfarin 10, 20 ár hafi það vissulega verið gert. Mikill munur er á aðstöðu þingmanna nú og var fyrir 20, 30 eða 40 árum. Við getum rennt huganum aftur til þess tíma að menn höfðu ekki einu sinni skrifstofu hér á þinginu heldur þurftu að leigja sér hana, hafa hana heima hjá sér eða hafa það með öðrum hætti sem var þegar ég byrjaði að fylgjast með þinginu, smástráklingur. Menn höfðu varla neina aðstöðu í þessu húsi fyrr en fyrir svona tveimur eða þremur áratugum að það hófst og hefur síðan batnað verulega. Við skulum þakka það sem þar hefur verið gert og það hefur líka orðið með auknum þrótti nú síðustu árin.

Það er eðlilegt að þetta gerist og hefur ekki verið gert vegna þess að þingmenn hafi verið að mylja undir sig heldur miklu fremur vegna þess að menn hafa viðurkennt að þingið hefur farið nokkuð halloka fyrir framkvæmdarvaldinu og viljað auka veg þingmanna og möguleika þeirra á aðhaldi og umræðum hér með þessum hætti. Það er eðlilegt, í tengslum við ýmsar breytingar á síðustu árum, að enn komi upp tillögur um að auka veg þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu og gagnvart ráðherrunum. Ekki síður er það ánægjuleg breyting að á þessu þingi, eftir síðustu kosningar, hefur farið fram umræða um það þarfa mál að auka til frambúðar aðstöðu stjórnarandstöðunnar á kostnað stjórnarliða. Við þekkjum það sem höfum verið í stjórnarandstöðu að sá aðstöðumunur er töluvert mikill og er lýðræðinu til baga.

Það má nefna enn eitt atriði í þessu og það er það að á — ég nefni enn áratugi, ég veit ekki á hve mörgum — tveimur, þremur eða fjórum áratugum hefur það gerst að yfir höfuð stjórnmálasamtökum hafa vaxið nokkuð öflug hagsmunasamtök sem hafa sett í kringum sig nokkuð stórar skrifstofur, sum þeirra heilar hagdeildir, og fyrirtæki sem í auknum mæli ráða til sín hæft starfsfólk á sérfræðisviði, á sviði almannatengsla o.s.frv. Það er því full ástæða til þess fyrir þingmenn og fyrir stjórnmálasamtök að efla þann þátt til þess að lýðræðið þroskist og blómgist og verði ekki eins og viðgengst í sumum ríkjum niðurstaða af einhvers konar jöfnuútkomu sem þrýstihóparnir sjá um að setja sínar stærðir inn í. Það er því eitt í viðbót sem menn eiga að huga að í þessu sambandi.

Síðan koma upp ýmsar spurningar um þetta, þegar rætt er beinlínis um aðstoðarmenn: Á þá hver þingmaður að fá sína persónulegu aðstoð eða eiga þingflokkarnir að ráða því? Það eru rök með og á móti þessu og ég hygg að einhver blanda af þessu væri skynsamleg. Það er auðvitað þannig að aðstoð við þingflokkana sem slíka eða þingið allt sem slíkt er að sumu leyti skilvirkari en þá verður líka að taka tillit til þess að breytingar hér á undanförnum missirum hafa nokkuð beinst að því að efla þingflokkana sem slíka á kostnað einstakra þingmanna. Það er kannski eðlilegt eða má a.m.k. heita skiljanlegt — í ljósi þeirra áhrifa sem einstakir þingmenn höfðu á árum áður þegar afstaða einstakra þingmanna í málum gat ráðið stjórnarsamstarfi eða mikilvægum málefnum öðrum langt umfram það vægi sem þeir einstöku þingmenn áttu að hafa — að þetta hafi gerst en það hefur gerst í töluverðum mæli. Menn geta bæði litið á þingsköp hér og þingskapabreytingar og aðra hluti til dæmis um vaxandi styrk þingflokkanna sem slíkra hér á þingi. Þegar ég tala um þingflokkana sem slíka á ég auðvitað við þingflokksforustuna, þ.e. forustu flokkanna. Ég tel að við eigum að fara varlega í að draga úr vægi einstakra þingmanna umfram það sem komið er og við eigum að muna að þingið er í eðli sínu, þótt þar komi margt annað til, safn af þingmönnum sem hver um sig ber ábyrgð gagnvart sínum kjósendum sérstaklega en allri þjóðinni almennt. Þetta frumeðli tel ég að sé mjög mikilvægt og eigi að vera grunntónninn í því starfi sem hér fer fram og þeim umræðum sem hér gilda.

Þess vegna líkar mér það, forseti, ákaflega illa þegar upp koma í umræðunni þingmenn og hafa það sem einhvers konar rök eða einhvers konar barefli á aðra ræðumenn að einhver úr þeirra flokki eða einhver fyrri forustumaður hafi sagt eitt eða annað. Við erum hér að ræða saman, þingmenn, við erum hér að heyja baráttu orðsins og það er eitt af hinum helgu hlutverkum sem þjóðþing eiga að sinna og þá á ekki að grípa fram í með svona kjánaskap. Hér er sem sé um jafnvægislist að ræða þar sem taka þarf tillit til ýmissa sjónarmiða.

Það er rétt að nefna það að þegar menn hafa áður verið að ræða um aðstoðarmenn beinlínis við þingmenn hafa menn oft nefnt það í leiðinni að þá væri ástæða til þess að fækka þingmönnum. Þingmenn eru fullmargir í þessu þjóðþingi miðað við það sem gerist í mörgum öðrum löndum og full ástæða væri til að fækka þingmönnum og draga úr kostnaði við þann hluta þinghaldsins gegn því þá að þingmenn fengju betri aðstoð, jafnvel hver um sig aðstoðarmann. Það er ekki lagt til í þessum reglum sem bera þess auðvitað merki að vera samsuða ýmissa sjónarmiða og málamiðlana sem þingflokkar og síðan stjórn og stjórnarandstaða hafa komist að.

Ég vil enn nefna þetta: Menn hafa rætt í kringum þetta mál hvort stjórnarandstöðunni sé búinn nægilega hár sess með þessu frumvarpi. Formaður allsherjarnefndar, hv. þingmaður, hefur tekið fram að hér sé ekki ein báran stök heldur sé um fleiri breytingar að ræða. Ég tel eðlilegt að stjórnarandstöðunni og forustumönnum hennar sé með einhverjum hætti veitt aðstoð eins og efnislega kemur fram í frumvarpinu. Ég geri hins vegar svona formalíska athugasemd við það að að þingið sé, með lögum eða reglum frá nefndum, að skipta þingmönnum upp eftir forsendum sem ekki eru þinglegar. Þá ég við það að formenn stjórnmálaflokka hafi einhvers konar sérstöðu umfram þá sem þeir hljóta að vinna sér inn hér á þinginu sem forustumenn í þingflokkum sínum vegna þess að það er ekki formleg þingleg staða að vera formaður stjórnmálaflokks. Það er hins vegar formleg þingleg staða að vera formaður þingflokks eða nefndar og þetta er auðvitað sama röksemdin og átti við um þá breytingu í frægu frumvarpi sem kvað á um að formenn stjórnmálaflokka fengju sérstaka launahækkun hjá Alþingi, en Alþingi ræður auðvitað engu um það hver er formaður stjórnmálaflokks. Það kemur Alþingi í sjálfu sér ekkert við hver er formaður stjórnmálaflokks eða hvort stjórnmálaflokkar hafa yfir höfuð formenn. Hér á þinginu voru ekki alls fyrir löngu fulltrúar stjórnmálaflokks sem aldrei kaus sér formann, nefnilega Kvennalistans, og höfðu fullan rétt til þess gagnvart guði og mönnum.

Aðalmálið í frumvarpinu, og það eina sem þarf eitthvað að ræða, er þetta undarlega ákvæði, að vísu ekki í frumvarpinu sjálfu, en í reglunum sem það byggist á, og teknar eru fram í greinargerð með því, að landsbyggðarþingmenn eigi að hafa sérstaka aðstoðarmenn, að vísu aðeins að 1/3, fram yfir aðra þingmenn. Þá er fyrst að fagna því að meiri hluti allsherjarnefndar virðist með einhverjum hætti hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé óeðlilegt. Eftir því sem sagt var hér áðan í umræðunum af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem er í meiri hluta allsherjarnefndar, hefur allsherjarnefndin í raun og veru komist að því að þetta geti ekki verið svona áfram heldur sé þetta einhvers konar formáli að því að allir þingmenn hafi aðstoðarmann. Ef það er skilningur meiri hluta allsherjarnefndar að þetta endi þannig — og ég bið formann hennar, hv. þm. Birgi Ármannsson, að staðfesta það eða leiðrétta að það sé skilningur allsherjarnefndar að næst eigi allir þingmenn að njóta þessarar aðstoðar og þá allir jafnt — ber að fagna því. Þá er umhugsunarefnið einungis tvennt og það er annars vegar af hverju það er ekki lagt til strax og í öðru lagi af hverju meiri hluti allsherjarnefndar og formaður hennar sérstaklega leiðréttir ekki það hald annarra þingmanna, og sérstaklega hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að með einhverjum hætti eigi að halda áfram að láta landsbyggðarþingmenn fá meiri aðstoð en aðra í einhverjum krafti.

Eins og ég sagði hér í andsvörum áðan þarf sérstök málefnaleg rök til mismununar af þessu tagi. Þau málefnalegu rök sé ég ekki að hafi komið fram. Reglur þingsins um ferðakostnað, um starfskostnað o.fl. gera ráð fyrir því að rétta þann mun sem vissulega er á þingmönnum landsbyggðarkjördæma sem svo eru kölluð — þó að reyndar megi efast um að mikill munur sé á manni í Hafnarfirði og í Vogum á Vatnsleysuströnd eða á manni sem býr á Akranesi og getur tekið strætó til Reykjavíkur eða manni sem býr í Norðlingaholti og er kannski bíllaus. Reglurnar gera ráð fyrir þessu og ég sé ekki að það þurfi frekari aðstoð til landsbyggðarmanna en tel þá að ef það þarf eigi hún að vera með þessum hætti. Þá eigi með málefnalegum hætti að styrkja menn til ferðalaga eða til fjarskipta eða til einhvers konar samræðu á annan hátt en ekki að gera það án þess að rök séu færð fyrir því.

Svo má auðvitað ekki gleyma þeim mun sem er á landsbyggðarþingmönnum og Reykjavíkurþingmönnum og felst ósköp einfaldlega í ranglátu kjördæmakerfi. Þannig er að 63% landsmanna kjósa 33 þingmenn en 37% þeirra kjósa 30 þingmenn. Í því felst að þingmenn kosnir í þeim þremur kjördæmum sem við köllum landsbyggðarkjördæmi eru fimm til tíu eintökum fleiri en þeir ættu að vera samkvæmt ósköp einfaldri jafnræðisreglu, ef ég má nota það hættulega og varasama orð. (Gripið fram í.) Má minna á að Kristinn H. Gunnarsson væri ekki þingmaður hér á þinginu ef alls jafnræðis væri gætt milli kjördæma heldur væru það aðrir og nú skal engin nöfn nefna. Ef spurningin er því um réttlæti eða jafnræði í þessu efni, um að jafna einhvern mismun eða eitthvert það ranglæti sem fram sé komið eða til sé í muninum á landsbyggðarþingmanni og kjördæmaþingmanni, eða eigum við að segja landsbyggðarframbjóðanda og höfuðborgarframbjóðanda, hefðu verið ýmsar aðrar uppástungur og leiðir til þess að gera það en með því að þeir fá að ráða sér aðstoðarmenn.

Ég held að þessi mismunun standist ósköp einfaldlega ekki og kýs að líta á þetta frumvarp þeim augum að hér sé í raun og veru verið að stíga það skref að allir þingmenn hafi einhvers konar aðstoðarmenn. Þó að ég telji að meginefni þessa frumvarps sé að því leytinu í rétta átt er ég ekki viss um að þetta skref sé skynsamlegt að stíga með þeim hætti sem gert er núna en geri ráð fyrir því að á endanum verði þetta þannig að það verði einn aðstoðarmaður á hvern þingmann eða sveit þingflokka. Ég held að við eigum þá að ræða það hreinskilnislega, telja upp þann kostnað og verja það þá, þeir sem það vilja, hvernig stendur á því að menn vilja auka kostnaðinn með þessum hætti án þess að fækka þingmönnum sem hingað til hefur alltaf fylgt með í þessari umræðu.