135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:25]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vissi að hv. þm. Birgir Ármannsson er ákaflega kurteis maður og háttprúður. Hann kallar það þess vegna einstakt útfærsluatriði hvort meiri hluti allsherjarnefndar og fulltrúi hans, sem er væntanlega fulltrúi meiri hluta þingsins eftir því sem ráða má af yfirlýsingum manna, ætli sér að jafna þennan mismun sem forsætisnefndin hefur lagt til og flytjendur frumvarpsins eða hvort hún ætli sér að halda honum áfram. Þetta er auðvitað grundvallarmál. Formaður nefndarinnar og fulltrúi meiri hlutans í þessari umræðu kemst ekki hjá því að svara því a.m.k. hver hans eigin meining er. Hann ætlar mönnum að samþykkja þessar breytingartillögur og getur ekki ætlað þeim að samþykkja þær nema þeir hafi þessar forsendur fyrir sér.

Hann hlýtur að gera okkur grein fyrir þessu vegna þess að meiri hluti allsherjarnefndar hefur kosið, eins og vakin hefur verið athygli á hér nokkrum sinnum, að skera úr um það álitamál hvort jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin eða ekki með því að heimila forsætisnefnd þá mismunun sem spurt er út í varðandi jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.