135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:26]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Marðar Árnasonar er rétt að það komi skýrt fram að af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar var breytingartillagan sem kom fram í nefndinni til þess ætluð að svara sjónarmiðum sem fyrst og fremst vörðuðu hvort um væri að ræða of mikið framsal valds til forsætisnefndar. Það þótti með öðrum orðum tryggara að segja skýrt í breytingartillögunni að forsætisnefnd hefði heimild til mismununar. Mér er ljóst að það hefur verið ákveðinn misskilningur á ferðinni í umræðunni í dag þótt hans gætti ekki á fimmtudaginn.

Hvort tveggja snýst um stjórnarskrána. Það má ekki framselja of mikið vald frá þinginu samkvæmt stjórnarskránni og komið er til móts við það sjónarmið. En varðandi jafnræðisregluna hefur meiri hlutinn tekið afstöðu á þeim grundvelli að ekki sé óheimilt að koma til móts við þarfir landsbyggðarþingmanna með því að veita þeim hugsanlega meiri aðstoð í þessu formi þótt meiri hlutinn sé jafnframt þeirrar skoðunar að auka beri aðstoð við þingmenn almennt.