135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Flest af því sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Magnússonar kom fram í fyrri ræðu hans. Því er ekki miklu við svörin að bæta. Hins vegar spurði hv. þingmaður að því hvað lægi að baki niðurstöðu meiri hluta allsherjarnefndar í þessu máli. Meiri hluti allsherjarnefndar samþykkir frumvarpið og mælir með því að það verði samþykkt.

Frumvarpið sem slíkt felur í sér tvennt. Annars vegar að heimilt sé að ráða aðstoðarmenn og hins vegar að forsætisnefnd sé heimilt að útfæra það, m.a. með tilliti til kjördæma og stöðu þingmanna í flokkum. Það er alveg ljóst að þetta er það sem allsherjarnefnd mælir með, að þingið heimili með samþykkt frumvarpsins. Hitt er svo annað mál, það þekkir hv. þm. Jón Magnússon og það kom skýrt fram í máli hv. þm. Ellerts B. Schrams, að þeir sem að meirihlutaálitinu stóðu eru þeirrar skoðunar eindregið að rétt sé að auka aðstoð við þingmenn almennt og einnig þingmenn frá þéttbýliskjördæmunum þremur. Um það er skýrt ákvæði í nefndarálitinu eins og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Við í meiri hlutanum útfærðum ekki tillögur um það enda liggur fyrir í öllu þessu máli að forsætisnefnd er ætlað viðamikið hlutverk við útfærslu á slíkum atriðum. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er óskað eftir því við forsætisnefnd. Henni eru að sjálfsögðu ekki gefin nein fyrirmæli um það en þar eru skýr tilmæli til forsætisnefndar um að hefjast þegar handa við slíka útfærslu. Þetta er skýrt í nefndarálitinu.