135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Enn er mér þetta ekki ljóst þótt skilningur minn hnígi nú í þá átt að hv. þm. Sturla Böðvarsson, 1. flutningsmaður málsins og forseti Alþingis, sé í raun og veru sömu skoðunar og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti hér áðan. Það sem kæmi til greina í framhaldinu væri eitthvað í þá veru að allir þingmenn fengju sem sé aukna aðstoð, t.d. einn aðstoðarmann á hvern þingmann. Þar að auki þann mun sem liggur í hinum upphaflegu tillögum forsætisnefndar en meiri hluti hennar er forseti þingsins.

Ég óska eftir því að forseti tali skýrar um þetta mál, sá sem hér sameinar það að vera hv. þm. og hæstv. forseti, vegna þess að ég hygg að afstaða manna í atkvæðagreiðslu og til málsins áfram fari að einhverju leyti eftir því hvort á að ná þessu jafnræði eða viðhalda því misrétti sem hér hefur verið.

Hv. þingmaður kvartar yfir því að þingmenn þessara þriggja kjördæma sem nefnd eru og kölluð landsbyggðarkjördæmi — þótt það sé auðvitað misnefni, skulum við kalla það. Menn í Vogum á Vatnsleysuströnd, af Akranesi eða á Selfossi er auðvitað erfitt að kalla sérstaka landsbyggðarmenn eins og nú er komið í landinu.

Ég spyr vegna upphafsorða hv. þingmanns: Bíðum við, er ekki Alþingi að laga þetta misrétti? Er ekki ferðakostnaði, starfskostnaði og ýmsu öðru hagað með því móti að hægt sé að draga úr þessu misrétti? Og úr því að rætt er um jafnrétti og misrétti, forseti, hvernig skýrir hv. þm. Sturla Böðvarsson það gagnvart eigin samvisku sem er svo sterk að honum svellur móður hér í stólnum yfir misréttinu hér á þinginu og í landinu, að 63% landsmanna kjósa 33 þingmenn en 37% 30 þingmenn? Hvernig skýrir hann að munurinn á þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna svokölluðu og höfuðborgarkjördæmanna svokölluðu er (Forseti hringir.) fimm til tíu manns höfuðborginni í óhag?