135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að spinna þennan þráð sérstaklega lengur þótt það sé svo sem fullt tilefni til. Ég lít ekki svo á að hæstv. forseti Alþingis Sturla Böðvarsson hafi gert fullnægjandi grein fyrir því álitamálum sem hér hefur verið velt upp, þ.e. varðandi jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það eru mér nokkur vonbrigði að hæstv. forseti Alþingis skuli leyfa sér að kalla að miðstýringu sem ég vil kalla sjálfsforræði stjórnmálaflokka, sem ég vil kalla lýðræðislega niðurstöðu stjórnmálaflokka og þingflokka. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir sjálfir geti komist að niðurstöðu eins og þeir hafa gert hingað til um á hvern hátt þessum stóru kjördæmum skuli sinnt fjárhagslega. Við höfum, eins og hér hefur réttilega komið fram, fengið til þess ákveðna fjármuni.

Mig langar til að spyrja tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi segir í niðurlagi greinargerðar frumvarpsins að miðað sé við að aðstoðarmennirnir verði ráðnir frá 1. mars 2008. Það segir á heimasíðu Alþingis, þar sem sagt er frá þessum hugmyndum, að reglurnar sem að baki liggja komi til með að verða aðgengilegar á heimasíðu Alþingis frá og með 1. mars. Nú spyr ég: Hverju sætir að þessar reglur skuli ekki vera komnar á heimasíðu Alþingis?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja, í ljósi þess að ákveðnar forsendur ráðningar aðstoðarmanna verða bundnar við reglur um opinbera starfsmenn og lög um opinbera starfsmenn, ég nefni þar sérstaklega hæfisskilyrðin: Hver er ástæða þess að aðstoðarmennirnir verða ekki opinberir starfsmenn?