135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er auðsótt mál að svara a.m.k. einhverju af þeim spurningum sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir beindi til mín. Ég vil segja það í upphafi að það fer ekkert illa á því að þingmenn nýti þennan umræðutíma í byrjun þingfundar til að ræða um framgang þingmála í þinginu, m.a. er til þess ætlast með því að gefa þennan tíma og er mér því ljúft og skylt að svara þessu.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að málið kom til allsherjarnefndar á haustdögum og það var sent til umsagnar hjá 18 aðilum. Þar af hafa sjö skilað umsögnum og geta þingmenn nálgast þær umsagnir á heimasíðu Alþingis. Hv. þingmaður spurði í hvaða anda svörin væru. Þau eru mismunandi enda aðilarnir ólíkir. Sumir vísa málinu frá sér á þeirri forsendu að það sé ekki á þeirra verksviði að svara, aðrir taka undir efni þess og aðrir koma með önnur sjónarmið inn í eins og gengur.

Því er til að svara varðandi málareksturinn að öðru leyti að frá því að málið var sent til umsagnar hefur það ekki verið tekið á dagskrá aftur í allsherjarnefnd, ekki frekar en önnur þau fjölmörgu þingmannamál sem til nefndarinnar hafa borist á þessu þingi. Ég held að ég fari rétt með að 33 mál, mest lagafrumvörp en einnig nokkrar þingsályktunartillögur, hafi komið til nefndarinnar í vetur og eins og venja hefur verið í nefndum þingsins hefur forgangsröðunin verið með þeim hætti að stjórnarfrumvörp og eftir atvikum frumvörp sem hafa komið frá forsætisnefnd þingsins eða formönnum þingflokka hafa fengið forgang í störfum nefndarinnar og þannig er staðan. Hins vegar vil ég geta þess að ég hef í hyggju á nefndadögum að ræða um framgang og meðferð þingmannamála við nefndarmenn en mér er ljóst að áhugi er hjá nefndarmönnum að taka til umræðu mörg þingmannamál sem þar liggja fyrir.