135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held því miður að það sé þörf á að leiðrétta það efnisatriði hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að formaður Framsóknarflokksins hafi á sínum tíma beitt sér fyrir endurskoðun á þessum lögum. (Gripið fram í.) Það var ekki svo heldur bauð formaður Framsóknarflokksins upp á samstarf um ákaflega takmarkaðan þátt þessa máls, þ.e. þann að þeir sem hætt hefðu störfum á þingi eða í ríkisstjórn (Gripið fram í.) og hafi vinnu á vegum ríkisins á öðrum stöðum, taki ekki tvöfaldan lífeyri, eða hvernig það nú var. Það var eini þátturinn sem sá formaður Framsóknarflokksins var reiðubúinn að endurskoða. Menn kinka kolli hér í salnum og þekkja þessa sögu. Mátti þó ekki gera það afturvirkt vegna þess að þá var í hættu stjórnarskrá og mikil lögmál sem að öðru leyti voru nú ekki virt af Framsóknarflokknum á þeim tíma.

Hins vegar ber að fagna því að Framsóknarflokkurinn hafi skipt um skoðun í málinu því að öfugt við mig greiddi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og allir hennar flokksmenn atkvæði með þeim lögum sem hér er um að ræða. Það var ekki fyrr en þau höfðu hrakist úr ríkisstjórninni m.a. af þessum sökum og voru farin að hugsa sinn gang að eitthvert annað hljóð kom í þann strokk.

Ég lýsi að öðru leyti yfir samstöðu með þeirri spurningu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir bar hér fram og tek undir með henni. Það er rétt að það er setning í stjórnarsáttmálanum um þetta sem betur fer. Það er árangur fyrir okkur sem greiddum atkvæði gegn þessu á sínum tíma. Það hefur ekki komið fram að ríkisstjórnin hafi samið eða sett á fót neins konar starf í þessu efni og meðan það er ekki fæst þingið við það mál sem hér liggur fyrir.

Ég fer fram á það fyrir mína hönd og annarra þeirra sem ekki eru hér að jafnaði að þingið starfi að því sem það hefur tekið sér fyrir hendur og sinni þessum málum (Forseti hringir.) sem mikill áhugi er á í samfélaginu öllu.