135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að þær upplýsingar sem gefnar eru þinginu stangast á við það sem fólk segir í landinu. Í gær kom fram að líklega væri verið að brjóta á lagalegum rétti 12 barna til að fá stuðningsfjölskyldur og að ekki hafi verið hægt að framlengja samning við þessar fjölskyldur vegna fjárskorts.

Hæstv. félagsmálaráðherra bar þetta nú til baka í gær og sagði að verið væri að gera of mikið úr þessu máli en nú kemur í ljós að fólkið segir sjálft: Það er verið að brjóta á lagalegum rétti okkar. Við fáum ekki þessa samninga endurnýjaða. Maður hefur frekar tilhneigingu til þess að trúa fólkinu sem á þessi börn heldur en svörum hæstv. ráðherra í þessu tilfelli. Það er grafalvarlegt ef þingið fær rangar upplýsingar. Ég tel því mjög brýnt að við fáum úr því skorið hver hefur rétt fyrir sér hér.

Í þessu sambandi vil ég líka taka fram að sú er hér stendur fékk um daginn skriflegt svar við fyrirspurn frá hæstv. umhverfisráðherra og í því svari var farið með rangt mál, þar voru rangar upplýsingar. Það gekk út á að kortleggja vegi á hálendinu og í svari ráðherrans sagði að búið væri að kortleggja alla vegi á hálendinu. Þetta er alrangt og það kemur reyndar fram í Morgunblaðinu í dag að þetta sé rangt. Það var ekki eins og hæstv. ráðherra missti eitthvað út úr sér, þetta var skriflegt svar. Dreift var á Alþingi skriflegu svari sem röngum upplýsingum. Ég tel að hæstv. ráðherra verði að leiðrétta svarið hér í þinginu. Það þýðir ekkert að láta embættismenn fara í Morgunblaðið og leiðrétta eitthvað þar. Það (Forseti hringir.) er því alvarlegt ef þetta eru algeng vinnubrögð í þinginu, að fá röng svör, virðulegur forseti.