135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óþægilegt í umræðunni þegar borið er á einstaka ráðherra að þeir fari ekki rétt með þegar þeir eru ekki til staðar til þess að svara fyrir sig. Það er erfitt að halda umræðunni áfram á meðan þeir eru ekki viðstaddir. Þar af leiðandi verða hv. þingmenn að fara varlega í slíkar ásakanir þegar enginn er til andsvara. Hér er um að ræða upplýsingar sem ráðherra ber þinginu, án efa eftir bestu sannfæringu. Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að hafa í huga í umræðu um störf þingsins. Tvisvar í viku er hægt að spyrja ráðherra út úr um það sem þingmönnum býr í brjósti. Ég held að það væri gott að menn nýttu þá tíma til að ræða svona atriði við hæstv. ráðherra þannig að þeir geti svarað fyrir sig.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í gær að 800 millj. kr. hefði hefði verið bætt við þennan málaflokk frá árinu áður og eins og ég skildi hæstv. ráðherra var verið að vinna í þessu tiltekna máli. Hæstv. ráðherra talaði um — ég verð nú að treysta á minnið — að þetta væru um 10 millj. kr. sem hér væri um að ræða. Ég gat ekki skilið ráðherrann á annan veg en þann að hann mundi vinna markvisst í að leysa úr þessu máli. Ég trúi því og treysti að hæstv. ráðherra geri það enda er hún ekki þekkt af öðru en að klára þau mál sem hún tekur sér fyrir hendur.

Ég vil aðeins ítreka að varast ber að bera sakir á hæstv. ráðherra sem eru fjarverandi. Það er mikilvægt að viðkomandi fái tækifæri til að svara fyrir sig, annars verður umræðan aldrei málefnaleg. (KolH: Hvar eru ráðherrarnir?)