135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[14:05]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, Árna Þór Sigurðssyni, fyrir spurningar hans og málefnalega umræðu. Ég ætla í sjálfu sér ekki að koma inn á það hvort hæstv. félagsmálaráðherra er staddur hér eða ekki. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. þingmanna á stöðu þessara fjölskyldna. Ég er ekki viss um að menn geri sér grein fyrir stöðu fjölskyldna með fötluð börn, hve mikil þörf er á stuðningsfjölskyldum.

Það vill þannig til að ég þekki mjög vel til þessara mála, að þurfa ætíð að grenja út stuðning hjá svæðisskrifstofum og hjá hinu opinbera til að lagalegur réttur þessara barna sé uppfylltur, nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Ég held að hv. þingmenn eigi að sjá sóma sinn í því að uppfylla þessar lagalegu skyldur með því að veita fjármagn í þetta.

Þetta er ömurlegt hlutskipti sem þessar fjölskyldur eru í, ég þekki það sjálfur.