135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:02]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hér er fjallað um efnahags-, atvinnu- og kjaramál og ég vildi gera atvinnumálin að umtalsefni mínu, sérstaklega á landsbyggðinni, og nefna til úrræði sem ég tel bæði afgerandi og virk. Sérstaklega er staða kvenna á landsbyggðinni döpur, afar döpur, þær hafa að fáum störfum að hverfa. Skýrasta dæmið um þessa döpru stöðu eru auðvitað búferlaflutningar af landsbyggðinni, líka frá Austfjörðum þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun og þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði. Þetta vandamál kvennanna sérstaklega verður best leyst með því að stórefla þjónustu við börn, aldraða og sjúka en á þeim sviðum eru konur auðvitað langfjölmennasta starfsstéttin. Þar á að sækja fram. Ég ætla ekki að nefna dæmi um það sem er vanrækt á þessu sviði en verð þó að nefna eitt og það eru börn og ungmenni sem hafa ánetjast eiturlyfjum og leiðst út í afbrot. Þau eru allt of mörg í dag á hreinum vergangi. Þessi ungmenni eiga í raun og veru í fá hús að venda nema í fangelsi. Það er nánast eina úrræðið til að fá þessi ungmenni úr umferð eiturlyfja og fíkniefna að þau fái skjól í fangelsi. Það er dapurlegt og staðan er slík í málaflokknum að margir foreldrar pressa hreinlega á fangelsisvistun barna sinna strax að loknum dómi. Það er óásættanlega staða í okkar þjóðfélagi og hér er vilji allt sem þarf til.

En það eru fleiri atvinnutækifæri og atvinnumöguleikar sem blasa við sérstaklega á landsbyggðinni bæði fyrir konur og karla. Þar á ég við útflutning á óunnum fiski sem að mínu mati er ávísun á atvinnuleysi. Útflutningur á óunnum fiski í gámum jókst á síðasta ári, hann nam 50.977 tonnum árið 2007 og þar af nam magn óvigtaðs afla 33 þúsund tonnum rúmlega og hefur aukist verulega.

Herra forseti. Í svari hæstv. sjávarútvegsráðherra 27. febrúar sl. upplýsti hann að útflutningur á óunnum fiski hefði aukist í heildina fyrstu fimm mánuði þessa fiskveiðiárs eða um 2.280 tonn á milli ára og þar munar mest um útflutning á ýsu, 1.900 tonn rúm, og 193 tonn af þorski. Þessi útflutningur hefur verulega neikvæð áhrif á þjóðarbúið og við erum að flytja út störf þegar jafnmikið kreppir að á landsbyggðinni og raun ber vitni.

Hráefnisskortur er viðvarandi vandamál, sérstaklega hjá fyrirtækjum í fiskvinnslu sem eru án útgerðar. Innlendir fiskframleiðendur eru ekki að biðja um nein stórmál, þeir eru að biðja um að fá að sitja við sama borð og erlendir kaupendur um aðgang að fiskafla okkar. Eins og staðan er í dag eru þeir útilokaðir frá samkeppni, frá því að bjóða í þennan afla, í afla sem er fluttur óunninn úr landi. Ég verð að halda því til haga, herra forseti, að virðisauki vinnslu sjávarafurða hefur verið með mesta móti hjá þeim fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu hér á landi án útgerðar og reiða sig á fiskmarkaði. Þessi fyrirtæki hafa verið í fararbroddi um aukinn virðisauka, eru sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á þessu sviði og sú hætta blasir nú við vegna niðurskurðarins að mörg þessara fyrirtækja verði að leggja upp laupana, hætta starfsemi sinni og þar með leggjast af dýrmætir sérmarkaðir sem þessi fyrirtæki hafa náð að skapa með hugviti sínu. Það eru engin vandamál með það að setja allan þennan fisk á markað. Við höfum fullkomið uppboðskerfi og gegnum internetið er hægt að stunda þessi viðskipti hvar sem er í heiminum og jafnvel í samskiptum við fiskiskip á hafi úti. Þannig geta kaupendur innan lands og erlendis setið við sama borð og það er ekkert því til fyrirstöðu að allur fiskur sem er fluttur út óunninn og fiskur sem er ekki verkaður af þeim sem veiða hann sé settur á markað þannig að menn sitji við sama borð. Þetta fyrirkomulag ætti að þýða það að hæsta mögulegt verð fáist fyrir aflann og það hlýtur að vera kappsmál allra útgerðarmanna.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi sýnt af sér ábyrgðarleysi í þessu máli sem er ófyrirgefanlegt í ljósi niðurskurðar þorskafla á árinu, fjöldauppsagna fiskverkafólks og fleira. Það er ábyrgðarleysi að flytja út þessi störf og stjórnvöldum ber að leita allra leiða til að bæta úr. Málið er grafalvarlegt og það verður best sýnt með því að vísa í ummæli Gunnars Braga Guðmundssonar, formanns Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, sem segir opinberlega að það séu stórmerkileg tíðindi að á sama tíma og þorskkvóti hafi verið skorinn niður um 30% og fiskvinnslur segi upp fólki um allt land vegna hráefnisskorts séu menn að flytja út meira af óunnum fiski en áður og það hafi aukist frá niðurskurðinum 1. september. Það er mál að linni og ríkisstjórnin öll snúi sér að þessu vandamáli og leysi það og hætti að búa til atvinnuleysi, fari í alvöruaðgerðir til að koma í veg fyrir uppsagnir fiskverkafólks og stórfellda erfiðleika sem blasa við sjávarbyggðum á landsbyggðinni. Auðvitað á ríkisstjórnin að tryggja eins og kostur er fullvinnslu alls sjávarafla hér á landi. Þessi aðgerð blasir við, er virk og raunhæf.

Önnur virk og raunhæf mótvægisaðgerð varðandi niðurskurðinn á þorskinum er að stórefla hafrannsóknir frá sjávarbyggðum sem verst hafa orðið úti vegna niðurskurðarins, stórefla þessar rannsóknir í samvinnu við sjómenn og útgerðarmenn. Ég spyr, herra forseti: Af hverju grípur ríkisstjórnin ekki til þeirra mótvægisaðgerða sem bæta í raun upp niðurskurð þorskafla og gagnast sjávarbyggðunum best? Af hverju leggur ríkisstjórnin blessun sína yfir það í verki að útlendingum sé seldur stór hluti af sameiginlegri auðlind okkar án þess að innlendir atvinnurekendur komist í samkeppnisfæri við þann fisk? Ríkisstjórnin er í raun að hleypa útlendingum bakdyramegin inn í fiskveiðilögsögu okkar án þess að innlendir fiskverkendur geti haft aðkomu. Það gengur ekki. Af hverju stóreflir ríkisstjórnin ekki fjármagn til hafrannsókna þegar maður heyrir það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd varðandi loðnuna að hagsmunaaðilum í þeirri grein líður eins og þeir séu að keyra bíl í myrkri án ljósa, þeir sjá ekkert fram fyrir sig? Hér þarf raunhæf virk úrræði, þau eru til staðar, og ég hvet hæstv. forsætisráðherra að huga gaumgæfilega að þeim úrræðum sem ég hef hér nefnt.