135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:28]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér fer fram, ég held hún sé afar mikilvæg. Það er hins vegar umhugsunarefni hvaða skilaboð þingið sendir til þjóðarinnar með henni. Það er mjög athyglisvert að heyra stjórnarandstöðuna hundskamma ríkisstjórnina fyrir að grípa ekki til aðgerða, koma ekki að málum, fljóta sofandi að feigðarósi eða vera daufgerð eða þunngerð eða hvaða orð það eru sem eru látin falla í þessum stóryrðaflaumi. Ég velti því fyrir mér hvernig efnahagslífið tæki því ef ríkisstjórnin hegðaði sér á sama hátt, ef ríkisstjórnin gengi fram með þeim orðavaðli sem hér hefur verið. Hvernig halda menn að efnahagslífið tæki því ef ríkisstjórnin notaði það orðfæri sem hér hefur verið notað? (Gripið fram í.)

Ríkisstjórnin hefur tekið á málunum af ábyrgð og festu. (Gripið fram í.) Hún hefur tekið á sínum málum af ábyrgð, festu og yfirvegun og það hefur skipt máli. Ríkisstjórnin hefur haldið ró sinni í þessari umræðu, (Gripið fram í.) sem er afar mikilvægt. Mér þótti það líka athyglisvert að málshefjandi fann fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra allt til foráttu, allt sem hafði gerst í hans tíð hefði hreint út sagt verið með ólíkindum, en um leið og sá hinn sami var orðinn formaður bankastjórnar Seðlabankans varð hann einhvers konar andlegur leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Ég veit ekki hvort á nokkurn hátt er hægt að taka þessa umræðu alvarlega, það verður að segjast eins og er.

Þegar við horfum á hlutina af einhverri sanngirni verður að viðurkennast, hvaða viðhorf sem menn hafa til ríkisstjórnarinnar, að það ástand sem við nú stöndum frammi fyrir er að stærstum hluta til komið vegna utanaðkomandi aðstæðna. Það er kreditkrísa á lánamörkuðum heimsins og að sjálfsögðu verðum við vör við hana. Skuldatryggingarálag á bankana er hærra en það hefur nokkru sinni verið og að sjálfsögðu finnum við fyrir því.

Það hefur líka komið fram að krónan er mjög veik við þessar aðstæður og hún á erfitt um vik í því alþjóðaumhverfi sem hún þrífst í. Seðlabankinn hefur farið þá leið að hafa vexti mjög háa og vaxtamun mjög mikinn, sem hefur fyrst og fremst miðað að því að halda genginu uppi. Menn verða að spyrja sjálfa sig hvort sú stefna geti gengið til lengdar að miða peningamálastjórnina fyrst og fremst við gengið á meðan flæði fjármagns er frjálst. Þetta hljóta menn að þurfa að hugleiða áður en þeir fella mikla dóma.

Einnig er ástæða til að nefna að niðurskurður í þorski og loðnu hefur vissulega mikil áhrif. Þjóð sem á einn eða annan hátt hefur sótt sitt í náttúruauðlindirnar — halda menn að það hafi ekki áhrif þegar niðurskurður verður eins og nú hefur átt sér stað? Stór hluti af þeim vanda sem við eigum við að etja er vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Af því að ríkisstjórnin er svo daufgerð og ómöguleg, og flýtur þar að auki sofandi að feigðarósi, er vert að nefna það sem hún hefur verið að gera. Hvað hefur hún verið að gera? Hún er að auka framkvæmdir svo um munar. Hún er núna að taka ákvörðun um að framkvæma í vegamálum fyrir 31 milljarð á þessu ári. Bara til að nefna það, af því að hv. þm. Guðni Ágústsson gjammar fram í umræðunni, þá er það tvöföldun frá árinu 2006, bara til að halda því til haga.

Ríkisstjórnin hefur greitt götu kjarasamninga. Er það ekki til þess fallið að efla stöðugleika til lengri tíma? Ríkisstjórnin hefur lækkað skatta. Er það ekki til þess fallið að reyna að tryggja stöðugleikann með því að færa byrðarnar tímabundið a.m.k. frá atvinnulífinu yfir á ríkið? Eru menn að halda því fram að hér sé ekki um neinar aðgerðir að ræða? Menn hafa hins vegar ekki gengið með trumbuslátt um götur og æpt og gólað að þeir væru að fara á taugum heldur hafa menn unnið þetta af festu og af þeirri bestu kunnáttu sem hægt er að styðjast við.

Það er með ólíkindum að hlýða á þá umræðu sem hér hefur farið fram. (Gripið fram í.) Í reynd er það þannig að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem jafnan gjammar fram í hér, er sá eini sem hefur orðið var við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og vill halda því til haga í umræðum um efnahagsmál, (Gripið fram í.) sem er í sjálfu sér allt í lagi.

Það er athyglisvert að fylgjast með því hvernig stjórnarandstaðan hefur algjörlega látið hjá líða að fjalla um það hvernig á því stendur að við stöndum frammi fyrir þeim vanda sem við er að etja og einnig gert lítið úr þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Ég fór yfir nokkrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til og einnig má nefna mótvægisaðgerðirnar, tilfærslu á einum 12 milljörðum til að styðja við bakið á þeim byggðum sem hafa orðið fyrir áföllum. (Gripið fram í.) Og það þekkjast ekki, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, í sögunni jafnstórvægilegar mótvægisaðgerðir svo að því sé nú öllu til haga haldið. (Gripið fram í.) Það er auðvelt að sitja úti í sal og krítisera en það væri ánægjuleg tilbreyting að stjórnarandstaðan kæmi fram með einhverjar hugmyndir. Hvar voru þær hugmyndir? (Gripið fram í.) Ekki hljómuðu þær hér.

Það kemur mér mjög á óvart hvernig þessi umræða hefur farið fram. Það kemur mér á óvart að stjórnarandstaðan skuli ekki hafa haft meira til málsins að leggja en raun ber vitni. Það kemur mér á óvart að stjórnarandstaðan virðist ekki hafa tekið eftir því að ríkisstjórnin hefur verið að reyna að stuðla að stöðugleika með því að færa byrðarnar frá einkageiranum eða einkaframtakinu, sem hefur haldið uppi hagvexti undanfarin missiri, yfir á ríkissjóð með auknum framkvæmdum, lækkun á sköttum og margvíslegum mótvægisaðgerðum. Ég held að það sé mikilvægt að menn leyfi ráðherrum ríkisstjórnarinnar a.m.k. að njóta sannmælis þó að mönnum liggi mikið við að draga upp svarta mynd af því sem er. Ég held að það sé mjög slæmt ef skilaboð þingsins út í efnahagslífið eru þau ein að dregin sé upp mjög dökk mynd. Ég er ekki viss um að það sé nákvæmlega það sem efnahagslífið þurfi, að hv. þingmenn hafi það eina til málanna að leggja að reyna að greina fortíðarvandann en leggja nánast ekkert inn um það (Forseti hringir.) sem virkilega skiptir máli, þ.e. að takast á við þann vanda sem við nú stöndum frammi fyrir.