135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

skipulags- og byggingarlög.

434. mál
[16:17]
Hlusta

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir, Ögmundur Jónasson og Atli Gíslason.

Um er að ræða mikilvæga viðbót við núgildandi lög sem er ætlað að styrkja stöðu sveitarfélaganna og gera þeim kleift að taka afstöðu til þess stórmáls sem heræfingar eru. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að flutningsmenn telja að heræfingar hafi engu jákvæðu hlutverki að gegna fyrir íslenskt samfélag og æskilegast væri að stjórnvöld úthýstu þeim með öllu. Þar til því markmiði hefur verið náð teljum við hins vegar mikilvægt að gera sveitarfélögum og skipulagsyfirvöldum kleift að sporna við helstu hættum sem stafað geta af slíkum æfingum.

Fyrsta grein frumvarpsins gerir ráð fyrir að við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn skal taka ákvörðun um hvort heræfingar verði samþykktar á viðkomandi stað.“

Tilgangur þessarar greinar er að tryggja að kjörnir fulltrúar almennings í sveitarstjórnum taki með beinum hætti afstöðu til þess hvort heræfingar skuli heimilaðar í landi sveitarfélagsins. Slíkt ákvörðunarvald er ekki hægt að framselja t.d. til skipulags- og byggingarnefnda sem oft eru sameiginlegar fyrir fleiri en eitt sveitarfélag. Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að á eftir 2. mgr. 27. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Notkun lands til heræfinga, þar með talið til lágflugsæfinga, utan varnar- og öryggissvæða er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að fenginni umsögn viðkomandi svæðisskipulagsnefndar. Framkvæmdaleyfi vegna slíkra æfinga skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir afmörkun svæðis, upplýsingaskyldu til almennings og hagsmunaaðila á svæðinu, grunnvatnsvernd, æfingatíma og frágangi svæðis.“

Markmiðið með þessari breytingu er margþætt. Í fyrsta lagi er stoppað upp í gat á núverandi löggjöf þar sem heræfingar eru ekki sérstaklega tilteknar. Þetta er augljós galli ef haft er í huga eðli þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Heræfingar geta haft verulega truflun í för með sér fyrir almenna borgara svo sem með hávaðamengun í tengslum við lágflugsæfingar eða takmörkun á ferðafrelsi fólks, t.d. í tengslum við lokun svæða meðan á æfingum stendur.

Heræfingar hafa sömuleiðis oft í för með sér talsverða mengunarhættu enda kalla þær iðulega á umferð stórvirkra véla og farartækja sem valdið geta röskun á umhverfi og leitt til mengunarslysa svo sem vegna olíu. Í þessu samhengi vil ég vísa í álitsgerð framkvæmdastjórnar um vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem lagðist á fundi sínum þann 8. nóvember árið 2000 gegn erindi um að heimilaðar yrðu heræfingar innan verndarsvæðis í Bláfjöllum. Í álitsgerðinni segir, með leyfi forseta:

„Framkvæmdarstjórnin lítur svo á að um sé að ræða sambærilega starfsemi og hvern annan atvinnurekstur, samanber 30. gr. í heilbrigðissamþykkt, nr. 636/1997, um vatnsverndarsvæði vatnsbóla innan lögsagnarumdæma Mosfellsbæjar, Reykjavíkur, Seltjarnarneskaupstaðar, Kópavogs, Garðabæjar, Bessastaðahrepps og Hafnarfjarðar. Leyfi til slíkrar starfsemi er m.a. háð því að tryggt verði að grunnvatn geti ekki mengast. Framkvæmdastjórnin telur að heræfingar hljóti í öllum kringumstæðum að setja vatnsvernd á svæðinu í óvissu.“

Þetta eru afdráttarlaus orð frá þeim aðilum sem fara með vatnsverndarmál höfuðborgarsvæðisins: Að heræfingar hljóti undir öllum kringumstæðum að setja vatnsvernd í óvissu.

Þó ekki væri nema fyrir þessa staðreynd er ljóst að full ástæða er til að fjalla sérstaklega um heræfingar í skipulags- og byggingarlögum. Í öðru lagi hefur greinin þann tilgang að tryggja sveitarstjórnum rétt á að segja til um heræfingar í landi sínu. Reynslan sýnir að sveitarstjórnir telja ýmist fram hjá sér gengið við ákvarðanir um framkvæmd heræfinga eða að þær telji, að sumu leyti réttilega, að slíkar ákvarðanir liggi utan síns valdsviðs.

Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna að sveitarstjórn Hvalfjarðarstrandarhrepps hefur gert harðorðar athugasemdir við að haldnar hafi verið heræfingar í gömlu herstöðinni í Hvalfirði í lítt eða engu samráði við stjórnendur hreppsins og raunar í óþökk þeirra. Ég þykist vita að íbúar á Hvalfjarðarströnd mundu fagna því að geta sjálfir fengið að taka ákvörðun um slíka starfsemi í sinni heimasveit. Ég bind því sérstaklega vonir við að þingmenn Norðvesturkjördæmis muni veita þessu máli stuðning.

Dæmi um hitt, að sveitarstjórnir hafi ekki talið sér heimilt að setja sig upp á móti jafnvel hinum fáránlegustu heræfingum eru þó nokkur. Áður hefur verið getið um þá makalausu hugmynd að halda heræfingar inni á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins árið 2000. Álíka fráleitar voru áætlanir um að halda hluta heræfinga, m.a. með þyrlulendingum í sjálfum Hljómskálagarðinum í miðborg Reykjavíkur sumarið 1999. Framkvæmd þessarar geggjuðu hugmyndar tókst að afstýra með beinum aðgerðum friðelskandi íbúa sem tóku sér stöðu í garðinum og komu þannig í veg fyrir allt saman. Borgarstjórn Reykjavíkur treysti sér hins vegar ekki til að standa vörð um þessa perlu Reykvíkinga gagnvart beiðni um heræfingar. Borgarstjóri í Reykjavík var á þessum tíma hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og raunar sitja nú á þingi allmargir einstaklingar sem þá áttu sæti í borgarstjórn. Ég vænti þess að sá hópur geti staðfest það hér í umræðum hversu mikilvægt það er fyrir sveitarstjórnir að fá ákvæði inn í skipulagslög sem taka af öll tvímæli um að þeim sé heimilt að banna heræfingar eða takmarka umsvif þeirra verulega.

Í þriðja lagi er greininni ætlað að uppfylla betur þau metnaðarfullu markmið sem fram koma í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem fram kemur að þeim sé ætlað að tryggja að þróun byggðar og landnotkunar sé í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafa efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.

Ljóst er að heræfingar kunna að ganga gegn þeim samfélagslegu og menningarlegu markmiðum sem einstök sveitarfélög hafa sett sér. Dæmi um þetta er Friðarstofnun Reykjavíkur sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri beitti sér fyrir að komið væri á fót síðla árs 2006. Af því tilefni sagði borgarstjóri, með leyfi forseta:

„Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála.“

Þetta er lofsverð framtíðarsýn og óskandi að henni verði hrint í framkvæmd hið fyrsta. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur raunar sýnt viðleitni sína með því að tendra friðarsúlu í Viðey sem listakonan Yoko Ono og fyrrnefndur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tóku einmitt í notkun á síðasta ári. Það er reyndar umhugsunarefni að súlunni skuli hafa verið fundinn staður steinsnar frá Sundahöfn þar sem sum stærstu og rammgerðustu herskip NATO-þjóða leggja að bakka á hverju sumri m.a. í tengslum við heræfingar. Ljóst er slíkar herskipakomur sem og hvers kyns heræfingar samrýmast ekki stefnu borgaryfirvalda um Reykjavík sem miðstöð friðar. Borgarstjórn Reykjavíkur hlýtur því að fagna samþykkt þessa frumvarps.

Virðulegi forseti. Mál þetta sem hér er flutt er í senn umhverfismál og lýðræðismál. Það tekur á einum mesta skaðvaldi umhverfisins því vitað er að fátt er eins mengandi og hermennska og hernaðarleg starfsemi. Sem dæmi má nefna að metið er að frá Bandaríkjaher falli um 750 þús. tonn af menguðum úrgangi á ári hverju. Það er meiri mengun en frá fimm stærstu efnaverksmiðjum Bandaríkjanna samanlagt.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér þegar maður heyrir rök Archie Clemins, aðmíráls í bandaríska hernum, sem fram komu í áströlskum fjölmiðlum nýverið fyrir kostum þess að stunda heræfingar í Ástralíu hvort hliðstæðar aðstæður á Íslandi laði hreinlega til sín heræfingar, með leyfi forseta:

„Við verðum að hafa staði þar sem við getum kastað sprengjum, staði til að skjóta með alvöruskotfærum, til að fljúga háværum vélum og þar sem við getum raunverulega kannað og æft hvers herinn er megnugur.“

Er þetta sú landnýting sem við sækjumst eftir? Umhverfisverndarþáttur þessa máls er augljós en lýðræðisþátturinn er ekki síður mikilvægur. Það er sjálfsögð krafa í lýðræðissamfélagi að veigamiklar ákvarðanir sem varða öryggi, heilbrigði og velferð íbúanna séu teknar sem næst þeim. Heræfingar er slík starfsemi að ekki verður við annað unað en að kjörnir fulltrúar almennings í sveitarstjórnum hafi sitt um málið að segja. Ég treysti því að þetta sjálfsagða réttlætismál fái góðar undirtektir hér í þinginu. Málefnalega umfjöllun í þingnefnd og verði orðið að lögum fyrir sumarið þegar fyrirséð er að efnt verði til heræfinga hér á landi.