135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

mat á umhverfisáhrifum.

435. mál
[16:56]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef mál mitt á því að ræða um dagskrá því að vakin var athygli á því hér áðan að hæstv. umhverfisráðherra er ekki viðstaddur þessa umræðu, hún mun vera í Brussel. Engu að síður eru hér fimm mál á dagskrá sem heyra beint til ráðherrans.

Með hinum nýju þingskapalögum var sett upp nýtt vinnuplan hér í þessum ágæta sal og það átti að vera þannig að þeir sem flytja mál sín hér gætu átt orðastað beint við ráðherra. Þess vegna væri málum þannig fyrirkomið á dagskrá að þar væri safnað saman, eins og hér hefur verið gert, málum sem til ákveðins málaflokks heyra og hér eru á dagskrá í dag frá lið fimm til níu mál sem undir sama málaflokk heyra. Fimmta dagskrármálið, frumvarp um efni og efnablöndur er stjórnarfrumvarp og meðan það var hér til umfjöllunar var einn hæstv. ráðherra í salnum, hæstv. samgönguráðherra, sem flutti framsögu hæstv. umhverfisráðherra fyrir því máli. Þegar kemur hins vegar að frumvörpum til breytinga á skipulags- og byggingarlögum og mati á umhverfisáhrifum, þá er hér enginn til andsvara. Á eftir þeim dagskrárlið eru tveir aðrir dagskrárliðir sem heyra beint undir umhverfisráðuneyti, þ.e. þingsályktunartillögur um óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá, og um heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið, sem gæti nú svo sem fallið undir fleiri ráðherra en umhverfisráðherra.

Mér þykir mjög miður, herra forseti, að þessu skuli svo farið að við fáum ekki tækifæri til að eiga orðastað við ráðherra eins og til var ætlast með þessum þingsköpum. Nú læt ég máli mínu um þennan þátt lokið nema að ég vil mótmæla því að athugasemdir sem gerðar eru við fjarveru ráðherra af hvaða orsökum sem þær kunna að skapast séu taldar ómaklegar og baknag.

Á dagskrá er mjög brýn tillaga, brýnt hagsmunamál allra Íslendinga. Hér er á dagskrá frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem gerir ráð fyrir því að heræfingar falli undir mat á umhverfisáhrifum og heræfingar, þar með talið lágflugsæfingar, utan varnar- og öryggissvæða.

Í frumvarpinu sem rætt var á undan þessu, sem var til breytinga á skipulags- og byggingarlögum, er tekið á því að tryggja sveitarstjórnum sem slíkum beina aðkomu að ákvörðun um staðsetningu heræfinga, hvar þær skuli fara fram. Með frumvarpi um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum er tryggt að aðrir hagsmunaaðilar en sveitarfélögin, svo sem landeigendur, ferðaþjónustufyrirtæki og útivistarfólk, hafi beinan aðgang og geti komið með athugasemdir varðandi framkvæmd og staðarval heræfinga og þannig vonandi minnkað líkurnar á skaða vegna þeirra.

Heræfingar hafa því miður verið algengar hér og fastur liður lengst af annað hvert ár. Heræfingarnar Norðurvíkingur hafa verið fastur liður í þjóðlífi Íslendinga hér undanfarin ár, því miður. Jafnoft hefur þeim verið mótmælt, ekki aðeins í þessum sal heldur einnig á götum úti. Því miður hefur engin bein aðkoma verið að því hvar eða hvenær halda á slíkar æfingar, jafnvel ekki hjá þeim sem hafa gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir rakti hér áðan. Hvort heldur það eru heilu sveitarfélögin sem eiga hagsmuna að gæta eða þeir sem eru með atvinnurekstur, t.d. á sviði ferðamennsku eða loðdýraræktar, að ekki sé talað um þann fjölda íbúa sem á hagsmuni sína undir vatnsvernd. Það er auðvitað alveg hárrétt sem hér kemur fram að heræfingar geta haft í för með sér — og hafa auðvitað í för með sér — verulega mikil og neikvæð umhverfisáhrif.

Með þessu frumvarpi er hér sem sagt verið að tryggja að allir þeir sem telja sig hafa hagsmuni af því að gera athugasemdir við staðarval eða tímasetningu heræfinga hafi aðkomu að því í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Það þýðir þá væntanlega að heræfingin yrði auglýst opinberlega og menn gætu gert athugasemdir við hana í tiltekinn tíma fram að henni.

Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir það frumkvæði og þá elju sem hún hefur sýnt með samningu þessara tveggja frumvarpa. Mér og öðrum þingmönnum vinstri grænna er heiður að því að fá að vera meðflutningsmenn á þessum skjölum.

Það eru nefnilega tímamót í þessum efnum á Íslandi vegna þess að með frumvarpi til varnarmálalaga sem hér er til umfjöllunar í þinginu stendur til að festa í lög á Íslandi með 18. til 20. gr. þess frumvarps, að hér skuli haldnar heræfingar á vegum utanríkisráðherra sem þar eru að vísu kallaðar varnaræfingar. Varnaræfingar og öryggissvæði eru skilgreind í þessu frumvarpi. Í 16. lið 5. gr. frumvarps til varnarmálalaga segir um varnaræfingar, með leyfi forseta:

„Æfingar sem haldnar eru hérlendis á vegum íslenskra stjórnvalda til að æfa samræmingu og viðbrögð vegna varna landsins, m.a. með þátttöku Bandaríkjanna og annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar eða annarra samstarfsríkja Íslands og innlendra viðbragðsaðila.“

Öryggissvæði er síðan skilgreint í 17. lið 5. gr. frumvarpsins sem það landsvæði sem íslensk stjórnvöld leggja til varnarþarfa, þar með talinna varnaræfinga, m.a. á vegum Bandaríkjanna eða annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins, og lýst hafa verið öryggissvæði á grundvelli laga þessara.

Það er alveg ljóst í mínum huga að með frumvarpinu sem er hér til umfjöllunar hefur verið brotið í blað. Það er komið að því að Íslendingar sjálfir ætla nú að standa fyrir þessum heræfingum, því miður. Hingað til hafa menn kannski getað leitt þetta hsjá sér en nú er Alþingi Íslendinga ætlað að taka ábyrgð á því að standa að þessum stríðsleikjum. Þá er eins gott að við setjum inn í regluverkið sem við höfum í lögum ákvæði sem takmarka skaðsemi af þessum heræfingum annars vegar og hins vegar að tryggja lýðræðislega aðkomu að því, ekki aðeins sveitarstjórna heldur einnig allra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.

Það þarf auðvitað ekki að tíunda það hér og ég vona að menn viti það í þessum sal hver stefna okkur vinstri grænna er í þessum efnum. Við teljum það gjörsamlega óþolandi og óverjandi þegar Ísland er gert að vettvangi fyrir æfingar á stríðsaðgerðum. Við teljum að íslensk stjórnvöld eigi að skipa Íslandi á bekk með vopnlausum ríkjum, ekki síst nú þegar Bandaríkjaher er loksins farinn burtu af landinu. Við teljum að ríkisstjórnin eigi fremur að leggja lóð á vogarskálar þeirra sem vilja vinna að friði og afvopnun á alþjóðavettvangi en að undirbúa stríðsleiki á vegum Nato og Bandaríkjamanna hér á landi með ærnum tilkostnaði, ekki aðeins peningalegum, heldur einnig umhverfislegum.

Nefnt var í umræðunni um fyrri dagskrárlið að sumarið 1999 stóð til að halda heræfingar í miðborg Reykjavíkur, í hjarta miðborgarinnar í Hljómskálagarðinum. Reykvíkingum var þá gjörsamlega ofboðið. Ég vil rifja upp að í þeim efnum þá var það aðeins borgarstjórinn í Reykjavík sem var spurður en borgarstjóri í Reykjavík var á þessum tíma hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Í svari borgarstjórans þáverandi til Samtaka hernaðarandstæðinga af þessum fyrirhuguðu heræfingum í Hljómskálagarðinum kemur fram að af hálfu Reykjavíkurborgar voru ekki gerðar athugasemdir við að þessar æfingar færu fram í landi Reykjavíkurborgar. Það var ekki aðeins í Hljómskálagarðinum sem það var fyrirhugað heldur einnig á Geithálsi, hér rétt utan við þéttbýlið, og eins við bandaríska sendiráðið.

Það sem gekk fram af mönnum í þessum efnum var ekki aðeins að æfa átti hér hernaðaraðgerðir og stríðsaðgerðir í Hljómskálagarðinum heldur áttu þessar aðgerðir að beinast gegn ímynduðum umhverfisverndarsinnum. Það átti að setja hér á svið stríðsleik við umhverfisverndarsinna. Eins og ég nefndi áðan var það aðeins borgarstjóri sem var spurður að þessu. Það kom hvergi fram þótt eftir því væri leitað að erindi utanríkisráðuneytisins af þessu tilefni hefði verið lagt fyrir borgarráð eða borgarstjórn, sem fundaði nokkrum sinnum milli þess sem erindi barst og þar til því var svarað.

Ég vil taka fram að í svarbréfi borgarstjóra til Samtaka hernaðarandstæðinga af þessu tilefni sagðist borgarstjóri almennt ekki telja neina ástæðu til þess að heræfingar erlendra herja fari fram í borginni. Það vona ég að allir geti sæst á. En sveitarfélögin eru fleiri eins og hér hefur komið fram.

Frumkvæði Samtaka hernaðarandstæðinga að því að hvetja sveitarfélög til þess að lýsa sig kjarnorkuvopnalaus hefur borið mikinn árangur. Það má lesa á heimasíðu Samtaka hernaðarandstæðinga að nú þegar hafa 74 sveitarfélög á Íslandi lýst því yfir að þau séu kjarnorkuvopnalaus svæði. Í aðeins fimm sveitarfélögum hefur slík yfirlýsing ekki enn verið samþykkt og það vekur athygli hvaða sveitarfélög það eru sem enn hafa ekki treyst sér til þessa. Þau eru nágrannar Keflavíkurflugvallar, þ.e. Reykjanesbær, Sandgerðisbær og sveitarfélagið Vogar en einnig Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur. Þetta eru sveitarfélög sem gæta annars vegar Mývatns og hins vegar Þingvallavatns. Mér þykir mjög miður að sjá þau utan þessa ágæta hóps yfir 70 sveitarfélaga sem geta nú, ef frumvörp Steinunnar Þóru Árnadóttur verða að lögum, haft beina aðkomu að því hvernig og hvar slíkar heræfingar fara fram.

Ég vil enn þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir frumkvæði hennar í þessum efnum og taka undir orð hennar um að þessi mál fái ítarlega umfjöllun og verði að lögum áður en heræfingarnar fara fram í sumar.