135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:20]
Hlusta

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Auk mín standa að frumvarpinu hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Álfheiður Ingadóttir, Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Ályktunin felur það í sér að ríkisstjórnin er látin vinna óháð áhættumat vegna umræddra framkvæmda og til verksins verði skipaður starfshópur óháðra sérfræðinga á sviði jarðvísinda, mannvirkjagerðar, áhættumats og veiðimála, eins og nánar er rakið í þessari tillögu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Landsvirkjun undirbýr nú byggingu þriggja virkjana í Þjórsá sem nefndar hafa verið hér að framan. Hér er um afar viðamiklar framkvæmdir að ræða sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og ber framkvæmdaraðili ábyrgð á því.

Áhættumat er nauðsynlegur hluti umhverfismats samkvæmt. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Mikilvægt er að slíkt áhættumat liggi fyrir þegar framkvæmdir, sem eru til þess fallnar að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið, eru undirbúnar. Til að slíkt áhættumat sé marktækt verður það að vera unnið á óhlutdrægan og faglegan hátt af óháðum sérfræðingum. Má í þessu sambandi vísa í lög um varnir gegn snjóflóðum.

Landsvirkjun hefur lýst því yfir að endanlegs áhættumats sé að vænta vegna ofangreindra framkvæmda. Það hafa verið birtar einhverjar niðurstöður án þess að framvísa bakgögnum eða pappírum en sá böggull fylgir þó skammrifi að áhættumatið er unnið fyrir Landsvirkjun af sömu aðilum sem hafa eftirlit með framkvæmdunum og koma að hönnun mannvirkjanna og hafa hagsmuni af því að framkvæmdirnar nái fram að ganga. Slíkt fyrirkomulag er að mínu mati til þess fallið að draga í efa að áhættumatið sé unnið á faglegan hátt.

Mikil umræða hefur farið fram um öryggi fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár og öryggi þeirra hefur verið dregið í efa með réttmætum hætti. Í virkjunum eða framkvæmdunum eru fólgnir fjölmargir áhættuþættir sem vert er að huga að og gaumgæfa mjög vel. Auk þess hefur það gerst að framkvæmdin eða útfærslan á þessum framkvæmdum hefur tekið umtalsverðum breytingum og nýjar upplýsingar liggja fyrir sem ástæða er til að hafa þungar áhyggjur af.

Ég vil fyrst nefna það að þetta svæði hefur mikla jarðvísindalega sérstöðu og aldrei fyrr hafa virkjanir verið byggðar á slíku landsvæði. Gildir það á heimsvísu. Svæðið liggur á flekaskilum og myndar sjálfstætt fleka- og sprungusvæði, svonefndan Hreppafleka. Suðurlandsskjálftar eiga upptök sín á þessu svæði. Þar hefur í áranna rás myndast fjöldi sprungna og jarðlög eru afar óþétt. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur vakið athygli á sérstöðu svæðisins og telur að þar verði erfitt að búa til lón sem haldi vatni og skynsamlegra sé að byggja þar rennslisvirkjanir.

Landsvirkjun hefur gefið afar lítið fyrir kenningar þessa virta fræðimanns og reynir fremur að gera lítið úr honum í stað þess að svara faglega.

Ég vil nefna það sérstaklega í þessu samhengi að á árinu 2000 hljóp Þjórsá eftir nýjum sprungum sem mynduðust við Suðurlandsskjálftana það ár þannig að grunnvatnsstaða í nágrenninu gjörbreyttist og dæmi eru um að tún í nágrenninu hafi eyðilagst eða spillst verulega. Ég nefni það sérstaklega að veruleg áhætta getur stafað af Urriðafosslóni á þessu sérstaka hreppaflekasvæði þar sem Þjórsá stendur um 4,5 metrum hærra en Hvítá á móts við Hestfjall, sunnan Vörðufells. Það hefur verið sýnt fram á það, meðal annars af eigendum Skálmholtshrauns, sem liggur að Urriðafosslóni, að jökulvatn úr Þjórsá hleypur í flóðum yfir Hvítá, á þar greiða leið eftir sprungum og gljúpum jarðlögum þegar Þjórsá er í vexti. Það er sem sé umtalsverð hætta á því að lónið verði hriplekt neðan jarðar, burt séð frá stíflum og stíflugörðum sem reisa á til að mynda þetta lón. Síðan bætist það við að hugsanlegt rof á stíflugörðum við jarðskjálfta — og þá á ég ekki við rof á stíflunni sjálfri heldur á görðunum sem liggja upp með lóninu, sérstaklega að vestanverðu — muni geta leitt til stórflóða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Flóahreppi og jafnframt niður alla Hvítá að Selfossi og til sjávar. Slík stórflóð gætu haft í för með sér áhættu á manntjóni. Við þessari áhættu hefur Landsvirkjun í raun skellt skollaeyrum. Það vita allir íbúar neðarlega á Skeiðum að grunnvatn hækkar í brunnum og annars staðar þegar Þjórsá er í flóði og það sést best að brunnar fyllast og í keldur og lækjarsytrur kemur jökullitað vatn. Það blasir einnig við út frá þessum sjónarmiðum sem ég hef rakið að virkjanalónin myndu hækka grunnvatnsstöðu, en nú er grunnvatnið á þessu svæði aðeins 1,5–2 metra frá yfirborði og það kynni að gera fjölda býla óhæf til búskapar, jafnt jarðir sem liggja að fyrirhuguðum lónum og fjær þeim. Þetta á sérstaklega við um Urriðafosslón. Vísindalega er ekkert því til fyrirstöðu að meta mögulegar afleiðingar stíflu- eða stíflugarðarofs og breytingar á grunnvatnsstöðu. Í báðum þessum tilvikum sem ég hef hér nefnt leikur verulegur vafi á því hvaða afleiðingar stíflurnar hafa og þennan vafa á að túlka náttúru svæðisins í hag samkvæmt grundvallarreglum umhverfisréttar og lagareglum sem við erum bundin af, bæði alþjóðasamningum og löggjöf EES.

Í þriðja lagi vil ég nefna að það er veruleg ástæða til að hafa þungar áhyggjur af laxagengd í Þjórsá og hliðarám verði af þessum framkvæmdum. Í ána ganga nú árlega um 6.000 laxar og mér er tjáð að hún sé öflugasta laxveiðiá landsins eða það ganga flestir laxar í þessa á af öllum ám á landinu. Það kann að hafa breyst með öðrum ám á Suðurlandi þar sem hefur verið mikil uppbygging með seiðasleppingum. Þegar búið er að stífla er alveg ljóst að mörg hrygningarsvæði og uppeldisstöðvar seiða eyðileggjast. Þar á ég sérstaklega við austanvert við Árnesið þar sem lónið nær alla leið upp eftir og þar fara þessi klak- og búsetusvæði í kaf. Ég vil líka nefna hitt að ástæða er til að ætla að laxinn nái ekki að ganga upp fyrir Urriðafossvirkjun — það er engin trygging fyrir því — og að laxaseiði geti ekki gengið til sjávar um lónin. Það er verið að breyta þarna straumvatni í kyrrstöðuvatn og Urriðafoss ber nafn með rentu. Þar er mikill urriði og menn halda að laxaseiðin í vötnunum eða í þessum lónum verði honum að bráð. Þeir sérfræðingar sem ég hef talað við telja verulega hættu á því að þessi laxastofn eyðist.

Ég verð líka að vekja athygli á því í þessu sambandi að fyrir neðan stíflurnar og niður að virkjanahúsum fyrir hverja stíflu mun vatnið minnka úr um 300 rúmmetrum niður í 15–20 þannig að það verður gjörbreyting á rennsli Þjórsár á þessum svæðum sem getur haft alvarleg áhrif á laxastofnana. Ég held því fram að þessar framkvæmdir standist ekki meginreglur umhverfisréttar um sjálfbæra þróun, varúð og mengunarbætur sem ríkið er skuldbundið til að hlíta.

Ég verð líka að vekja athygli á einum öðrum áhættupunkti í þessu sambandi. Vísindamenn hafa bent á að árósar jökulánna séu mjög mikilvæg uppeldis- og hrygningarsvæði þorskstofnsins. Á það hefur verið bent í athugasemdum Guðmundar Páls Ólafssonar, náttúrufræðings og rithöfundar, við skipulagsbreytingar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hann bendir meðal annars á gagnmerka fræðigrein eða gagnmerkt innlegg eftir Guðrúnu Marteinsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, þar sem í ljós hefur komið að streymi jökulánna og árósar jökulánna skapi uppeldissvæði og þroskasvæði fyrir þorskseiði, sérstaklega stóran þorsk,. Ég vek athygli á því að fyrir utan mynni ósa Þjórsár er Selvogsbanki og aðrar gjöfular veiðislóðir.

Þessi sömu sjónarmið eru ítarlega reifuð af mikilli framsýni, verð ég að segja, í grein eftir Ólaf S. Andrésson hjá Háskóla Íslands — hann var lífefnafræðingur og starfaði á tilraunastöð háskólans í meinafræði — í grein sem hann kallar Hlaupaþorska. Mikil er framsýni þessa vísindamanns, Ólafs S. Andréssonar því að greinin er skrifuð 7. júní 1992. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því og hugleiða hvaða áhrif það hefur þegar hlaup úr þessum jökulám eru tekin úr sambandi. Það er talið að það séu mikil víxláhrif óreglulegs vatnsstreymis úr jökulánum við þessi uppeldissvæði þorskseiða og hrygningarsvæði.

Að mínu mati er afar brýnt að fram fari óháð gagnsæ rannsókn á þessum áhættuþáttum sem ég hef hér reifað og öllum lífríkisþáttum og búsetuþáttum þessara virkjana. Ég tel að núverandi aðstæður við Þjórsá og þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram kalli á sjálfstætt áhættumat óháðra sérfræðinga og það verður illa við það unað að framkvæmdaraðilinn, þegar svona miklir hagsmunir eru í húfi, ráði matinu. Ég verð að nefna það í þessu sambandi að Landsvirkjun hefur gert samning við sveitarstjórn Flóahrepps í tengslum við skipulagsbreytingar og umhverfismat þar sem Landsvirkjun leggur til samfélagsleg verkefni, veglagningu, ferðamannaaðstöðu, vatnsveitu, gsm-símkerfisúrbætur, eingreiðslur upp á 40 milljónir á ári til sveitarfélagsins og margt fleira, allt í því skyni að kalla fram skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi frá Flóahreppi. Ég verð að segja það eins og er með hliðsjón af þessum samningi og fleiru að mér er til efs að sveitarfélögin geti litið hlutdrægnislaust á málin og afgreitt skipulagsbreytingar og starfsleyfisbreytingar eða framkvæmdarleyfi með lýðræðislegum opnum hætti í anda góðrar stjórnsýslu. Ég segi því með vísan til þess sem ég hef hér sagt að Alþingi verður að tryggja að hópur sérfróðra óháðra manna vinni áhættumat vegna áforma um fyrrnefndar virkjanaframkvæmdir enda tel ég að hér séu miklir almannahagsmunir í húfi.

Ég óska eftir því, frú forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umhverfisnefndar.