135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:12]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta umrædda landsvæði í neðri hluta Þjórsár hefur mjög mikla jarðfræðilega sérstöðu og ástæðan fyrir því að menn hafa áhyggjur af matinu og þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sem þar er verið að vinna að eru ekki síst viðvaranir helstu vísindamanna okkar um að þarna geti ekki með góðu móti verið hægt að halda uppi vatni í lónum. Ég hlýt að nefna það hér að Páll Einarsson, einn okkar allra virtasti jarðeðlisfræðingur, hefur varað sterklega við þessum áformum. Hann telur að ef menn ætli að nýta kraft Þjórsár á þessu svæði eigi menn að gera það með rennslisvirkjunum, ekki með inngripum af þessu tagi. Við skulum athuga að Suðurlandsskjálftar eiga upptök sín á þessu svæði. Menn kæra sig hvorki um að missa heilt lón niður í jarðgrunninn né heldur að stíflur bresti af slíkum völdum. Það eru fullar efnislegar ástæður til að grípa inn í þetta mat sem þarna fer fram. Það hefur verið varað sterklega við þessu. Landsvirkjun hefur því miður skellt skollaeyrum við því og ég verð bara að segja: Ég bjóst ekki við öðru af þeim bæ. En hv. Alþingi á ekki að leika sama leikinn.